Kínverski herinn segist hafa lokið „árangursríkum“ heræfingum í kringum Taívan. Æfingarnar stóðu yfir í þrjá daga.
Litið var á æfingarnar sem aðvörun til ríkisstjórnar eyjunnar eftir að forseti Taívans fundaði með forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Kínversk stjórnvöld fordæmdu fundinn.
Rússnesk stjórnvöld fagna heræfingunum og segja það vera rétt Kínverja sem fullvalda ríki að bregðast við því sem Rússar segja „ögrandi athæfi“.
„Við höfum margoft orðið vitni af ögrandi athæfi þegar kemur að hegðun þeirra gagnvart kínverska lýðveldinu,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, og átti við Taívan.
„Kína hefur sem fullvalda ríki rétt á því að bregðast við þessu ögrandi athæfi, þar á meðal með hernaði sem samræmist alþjóðlegum lögum.“
Taívan hefur búið yfir sjálfsstjórn frá borgarastríðinu árið 1949 og líta Taívanar á landið sem fullvalda ríki. Þeir hafa eigin mynt, stjórn- og dómskerfi, en hafa aldrei lýst formlega yfir sjálfstæði.