Bandaríska dómsmálaráðuneytið hvatti áfrýjunardómstól í dag til að frysta úrskurð alríkisdómara í Texas um að banna þungunarrofslyf. Ráðuneytið hefur áfrýjað niðurstöðunni.
Dómarinn Matthew Kacsmaryk, sem Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, skipaði á sínum tíma, ógilti á föstudag tveggja áratuga gamalt samþykki bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins á lyfinu mifepristone.
Lyfið er notað fyrir meira en helming þeirra þungunarrofa sem framkvæmd eru árlega í Bandaríkjunum. Búist er við því að málið fari fyrir hæstarétt landsins.
Í umsókn dómsmálaráðuneytisins kemur fram að úrskurðurinn myndi skaða konur alvarlega ef hann tæki gildi. Fundið verði fyrir skaðanum um allt land í ljósi þess að mifepristone hefur verið löglega notað í hverju ríki.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hét því í síðustu viku að berjast gegn úrskurðinum og sagði hann vera fordæmalaust skref í þá átt að svipta konur frelsi og stofna heilsu þeirra í hættu.
Skömmu eftir að dómarinn í Texas gaf út ákvörðun sína úrskurðaði dómari í Washington-ríki í öðru máli að varðveita þyrfti aðgang að mifepristone. Dómarinn, Thomas Rice, taldi að lyfið væri bæði öruggt og löglegt.