Rússneskur dómstóll dæmdi í morgun tvo fyrrverandi þjóðvarðliða í 19 ára fangelsi fyrir að kasta Molotov-kokteilum á húsnæði bæjarráðs í bænum Bakal í héraðinu Chelyabinsk í suðurhluta Rússlands.
Með athæfinu vildu þeir mótmæla herkvaðningu vegna stríðsins í Rússlandi, að sögn rússneskra fréttastofa.
Tugir dóma hafa fallið í Rússlandi fyrir sams konar árásir síðan Rússar réðust inn í Úkraínu en enginn hefur verið eins þungur og þessi.
Í september í fyrra tilkynnti Vladimír Pútín Rússlandsforseti um herkvaðningu að hluta til vegna stríðsins í Úkraínu og leiddi það til þess að fjöldi karlmanna yfirgaf Rússland til að komast hjá því að vera sendur í fremstu víglínu.
Þjóðvarðliðarnir tveir, Roman Nasriyev og Alexei Nuriyev, sem störfuðu í almannavarnarráðuneyti Rússlands, voru dæmdir fyrir árásina í Bakal 22. október. Herdómstóll komst að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu framið hryðjuverk sem hluti af skipulögðum hóp með athæfi sínu.