Reyndu að aka lögregluþjón niður

Koparþjófar sem öryggismyndavél kom upp um reyndu að aka á …
Koparþjófar sem öryggismyndavél kom upp um reyndu að aka á lögregluþjón þegar lögregla kom á vettvang í morgun. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lögregla í Aurskog í Viken, austan við Ósló í Noregi, skaut á bifreið koparþjófa sem reyndu að aka lögregluþjón niður í morgun auk þess að aka á lögreglubifreið áður en þeim tókst að forða sér af vettvangi.

Komu tveir lögregluþjónar að þjófunum eftir að tilkynnt hafði verið um þá en þá hafði sést til þeirra með aðstoð öryggismyndavélar á Vikodden þar sem þeir voru við þá iðju að stela koparvír úr straumbreytistöð þar á svæðinu. Þjófar sækja í að stela koparnum og koma honum í verð og er ekki lengra síðan en þrjár vikur, að sögn lögreglu, að andvirði þýfisins í slíkum þjófnaði nam tugum þúsunda norskra króna.

Fólk hafi auga með Golf með sundurskotna rúðu

Annar lögregluþjónninn fór út úr bifreiðinni í morgun og reyndi ökumaður silfurgrárrar VW-bifreiðar þá að aka á hann áður en hann ók á lögreglubifreiðina en komst að því búnu af vettvangi.

Að sögn Trond Lorentzen varðstjóra, sem ræddi við norska ríkisútvarpið NRK í morgun, hefur bifreiðin ekki fundist þrátt fyrir mikla leit og biður lögregla almenning um að hafa augun opin fyrir krambúleruðum Volkwagen með sundurskotna afturrúðu.

Rannsóknardeild í innri málefnum lögreglu hefur verið tilkynnt um atburðinn eins og ávallt þegar lögregla beitir skotvopnum við störf sín.

NRK

VG

Dagsavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert