Bar við minnisleysi fyrir héraðsdómi

Miðbærinn í Steinkjer þar sem maðurinn ók vörubifreið upp á …
Miðbærinn í Steinkjer þar sem maðurinn ók vörubifreið upp á gangstétt aðfaranótt sunnudags með þeim afleiðingum að 21 árs gamall maður lét lífið og tveir vegfarendur hlutu sár af. Ljósmynd/Wikipedia.org/Espen Andre Wåde

Grunaði í Steinkjer-málinu í Noregi var í gær úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í þinghaldi fyrir Héraðsdómi Þrændalaga þar sem hann játaði refsiábyrgð sína á manndrápi af gáleysi og gáleysislegri stjórn ökutækis.

Grunaði og verjandi hans, Anne Marstrander-Berg, neita því þó staðfastlega að um viljaverk hafi verið að ræða sem er ein kenninga lögreglu í ljósi brotaferils grunaða.

Við gæsluvarðhaldsþinghaldiðí gær gaf grunaði þá skýringu að hann hefði sest að vodkadrykkju milli klukkan sjö og átta á laugardagskvöldið að norskum tíma. Hefði hann svo ákveðið að halda á vit næturlífsins í Steinkjer er líða tók á kvöldið en þangað er töluverður spölur frá heimili hans.

„Ég spurði hvort einhver vildi vera bílstjóri og keyra bílinn minn niður í bæ,“ sagði grunaði en þessa fyrirspurn sendi hann á alla þá tuttugu sem eru tengdir honum á samfélagsmiðlinum Snapchat, að móður hans undanskilinni.

Ekki viss um hvað gerðist

„Ég rétt man eftir að hafa sest upp í bílinn og keyrt til Steinkjer,“ lýsti grunaði ölvunarástandi sínu þegar hann lagði af stað að heiman. „Svo drakk hann í bænum og svo er hann ekki viss um hvað gerðist þegar hann fór þaðan, en hann var þá á bílnum sem hann kom á,“ sagði Marstrander-Berg verjandi.

Skjólstæðingur hennar kveðst ekkert muna eftir þeim atburði að hafa ekið vörubifreiðinni upp á gangstétt í miðbæ Steinkjer þar sem hann varð rúmlega tvítugum Norðmanni, Sigve Bremset, að bana.

Kvaðst grunaði harma atburðinn af öllu hjarta þegar saksóknari spurði hann út í þau ummæli hans að hann hefði fengið martraðir eftir atburðinn. „Að ég sé ábyrgur fyrir dauða manneskju. Að ég sé svo heimskur að hafa keyrt fullur,“ svaraði hann spurningu saksóknara um hvers hann iðraðist. Bætti grunaði því við að hann væri dóttur sinni slæm fyrirmynd. „Mér ber að refsa þegar ég hef brotið af mér,“ sagði hann.

Segir verjandi framburð skjólstæðings síns styðja þær fullyrðingar þeirra að verkið hafi ekki verið unnið með vilja. Á það vill lögregla ekki fallast og byggir sjónarmið sín á framburði vitna að atburðinum auk þess sem brotaferill grunaða og háværar yfirlýsingar hans árið 2017, um að fremja hryðjuverk af slíkri stærðargráðu að fjöldamorð Anders Breiviks bliknuðu í samanburði, sé honum síst til framdráttar.

Fór lögregla fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald en dómari talda hana ekki hafa fært fullnægjandi rök fyrir svo löngu varðhaldi og úrskurðaði því tvær.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert