Hrópað að Macron í miðri ræðu

„Ég get svarað þessari spurningu, gefðu mér smá stund,“ svaraði …
„Ég get svarað þessari spurningu, gefðu mér smá stund,“ svaraði Macron við spurningum mótmælenda sem trufluðu hann í miðri ræðu. AFP

„Hvar er franska lýðræðið? Hvenær misstum við það?“ heyrðist úr áhorfendahópi í Amare-leikhúsinu Haag þegar mótmælendur trufluðu Emmanuel Macron Frakklandsforseta, sem var í miðri ræðu.

Macron hefur ekki átt sjö dagana sæla seinustu misseri, einkum eftir að hann lét þvinga afar umdeilt frumvarp um hækkun ellilífeyrisaldurs í gegnum þingið. Ákvörðunin leiddi til einna stærstu mótmæla og verkfalla sem hafa orðið í Frakklandi og frekari mótmæli eru boðuð á fimmtudag. Þar að auki hefur flokkur hans misst umtalsvert fylgi í skoðanakönnunum.

Macron lenti í dag í Hollandi þar sem hann ætlar sér að stíga sín fyrstu skref í að gera Evrópusambandið að miðlunaraðila milli Bandaríkjanna og Kína. Þetta er fyrsta sinn í 23 ár sem forseti Frakklands fer í opinbera heimsókn til Hollands.

Forseti ofbeldis og hræsni

Þegar mótmælendur létu til sín taka stóðu tvær konur öðru megin í leikhússalnum sem héldu á gulum borða sem á stóð: „forseti ofbeldis og hræsni“. Í hinum enda salarins stóð maður sem hélt á bláum borða og hrópaði ókvæðisorð að forsetanum.

„Ég get svarað þessari spurningu, gefðu mér smá stund,“ svaraði Macron en öryggisverðir höfðu vísað mótmælendum úr salnum mínútu síðar.

Vel á þriðja tug mótmælenda hafði staðið fyrir utan leikhúsið áður en Macron hóf ræðu sína.

Macron sagði það vera „afar mikilvægt að eiga í samtali við samfélagið“ og að hann gæti „svarað öllum spurningum sem tengdust Frakklandi“. Hann bætti því við að fólk sem gerir „hvað sem [það] vill“ á móti lögum sem þau eru ósammála „stefni lýðræðinu í hættu“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert