Jones mættur aftur í ríkis­þing­húsið

Hér má sjá Jones með krepptan hnefa á leið í …
Hér má sjá Jones með krepptan hnefa á leið í þinghúsið. AFP/Seth Herald

Annar þingmannanna sem leystir voru frá störfum á ríkisþinginu í Tennessee á fimmtudaginn síðastliðinn hefur fengið starfið aftur. Borgarráðið í Nashville kaus um arftaka þingmannsins, Justin Jones, í starfi í gær og ákvað að senda Jones aftur á ríkisþingið.

Borgarráðið var einróma í sinni ákvörðun en allir 36 meðlimir ráðsins kusu með tillögunni.

CNN greinir frá.

Þingmennirnir Justin Jones, Justin Pearson og Gloria Johnson mótmæltu veikri skotvopnalöggjöf á ríkisþinginu í Tennessee í kjölfar skotárásarinnar sem varð í Nashville í lok mars. Þingmennirnir, sem nú eru kölluð Tennessee three“ eða „Tennessee þríeykið“ voru sökuð um brot á þingsköpum og siðareglum eftir mótmælin og kosið var um hvort að leysa ætti þau frá störfum.

Líkti mótmælunum við árásina á þinghúsið 6. janúar 2021

Í mótmælum sínum hrópaði þríeykið það sama og hundruð mótmælenda sem höfðu komið saman fyrir utan dyr ríkisþinghússins. Þau óskuðu eftir strangari skotvopnalöggjöf og furðuðu sig á því að þingið gæti, svo stuttu eftir mikinn harmleik, haldið áfram með dagleg störf án þess að taka á rót vandans. Þessu greinir miðillinn The Tennesseean frá. 

Forseti ríkisþingsins, Cameron Sexton, líkti gjörðum þríeykisins við árásina á bandaríska þinghúsið þann 6. janúar 2021. 

@vicenews Republicans in Tennessee voted to kick Reps. Justin Jones and Justin Pearson out of the legislature for a peaceful protest against gun control, while a vote to oust Rep. Gloria Johnson failed by one vote. #tennessee #tennesseecapitol #justinpearson #justinjones #tennesseehouse ♬ original sound - VICE News

Húðlitur og aldur vógu þungt 

Jones og Pearson voru í kjölfarið leystir frá störfum en Johnson hélt embætti sínu. Vert er að nefna að Jones og Pearson eru ungir, svartir karlmenn, en Johnson hvít kona á sjötugsaldri. Sjálf hefur hún sagt ástæðuna að baki þess að hún hafi ekki verið leyst frá störfum mjög augljósa en húðlitur og aldur hafi þar spilað stórt hlutverk.

Jones og Johnson gengu saman inn í þinghúsið eftir að Jones hafði aftur verið vígður í embætti. Búist er við því að sýsluráð í Memphis, sem að ræður örlögum Pearson, muni fylgja fordæmi borgarráðsins í Nashville innan örfárra daga.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert