Whole Foods er nú orðin nýjasta verslunarkeðjan til þess að skella í lás í borginni San Francisco í Kaliforníu. Ástæðan er sögð vera fjölgun glæpa á svæðinu og öryggi starfsfólks.
Verslunin opnaði í mars 2022 og hefur því aðeins verið starfrækt í rétt rúmt ár. Ekki er ljóst hvort að lokunin sé endanleg eða ekki. Frá opnum hafa stjórnendur þurft að eiga við áhrif fíkniefnasölu á svæðinu í kringum verslunina og þjófnaðar vegna þessa.
Bráðabirgðatölur lögreglunnar á svæðinu sýna að tólf morð hafa verið framin í San Francisco það sem af er ári, það er tuttugu prósent aukning á sama tímabili frá árinu áður.
Stjórnandi hjá verslunarkeðjunni Walgreens hefur síðar sagt að áhrif þjófnaðar á svæðinu gætu hafa verið ýkt svo um munaði.
Whole Foods eru þó ekki þeir einu sem eru að fækka verslunum í borginni vegna þjófnaða og ógna við öryggi starfsfólks. Verslunin Cotopaxi lokaði tímabundið vegna keimlíkra vandræða en fleiri verslanir á svæðinu hafa gripið til þess að læsa inni hluti eins og svitalyktareyði og tannkrem.