Murrell enn félagi þrátt fyrir rann­sókn

Hér má sjá hjónin. Sturgeon og Murrell.
Hér má sjá hjónin. Sturgeon og Murrell. AFP/Robert Perry

Skoski þjóðarflokk­ur­inn (SNP) hyggst ekki reka Peter Mur­rell, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra flokks­ins og eig­in­mann fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Skot­lands, úr flokkn­um. Hann þurfi að segja sig úr flokkn­um sjálf­ur, vilji hann á brott hverfa. Þá er Mur­rell sagður bera ábyrgð á styttu til­nefn­ing­ar­ferli flokks­ins vegna kjörs næsta leiðtoga. 

Mur­rell var hand­tek­inn þann 5. apríl síðastliðinn vegna rann­sókn­ar skosku lög­regl­unn­ar á fjár­mál­um flokks­ins. Til rann­sókn­ar er meðferð 600 þúsund punda eða 105,3 millj­óna króna sem bár­ust í styrkj­um til flokks­ins vegna þjóðar­at­kvæðagreiðslu um sjálf­stæði Skot­lands og kosn­inga­bar­átt­unn­ar þar í kring.

Fram­kvæmda­stjór­inn fyrr­ver­andi var yf­ir­heyrður í ell­efu klukku­stund­ir vegna máls­ins og sleppt í kjöl­farið. Lög­regl­an gerði hús­leit á heim­ili hans og Nicolu Stur­geon, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Skot­lands. Þá tók lög­regla einnig skjöl úr húsa­kynn­um flokks­ins í Ed­in­borg vegna máls­ins. Í um­fjöll­un Tel­egraph kem­ur fram að Mur­rell hafi ekki verið ákærður en rann­sókn­in hafi verið í gangi síðan í júlí 2021.

Mur­rell sagður brúðumeist­ari á bak við tjöld­in

Stur­geon er sögð hafa talið fé­lög­um flokks­ins trú um það að það væri ekk­ert at­huga­vert við fjár­mál flokks­ins þegar rann­sókn máls­ins hófst árið 2021.

Nýr leiðtogi flokks­ins, Humza Yousaf, hef­ur neitað því að rann­sókn­in hafi verið ástæðan að baki af­sagn­ar Stur­geon úr embætti fyr­ir stuttu. Ýmsar spurn­ing­ar eru þó á lofti varðandi leiðtoga­kjör flokks­ins eft­ir af­sögn henn­ar. Sam­kvæmt Tel­egraph tók flokk­ur­inn á móti til­nefn­ing­um í embættið í aðeins átta daga en í regl­um flokks­ins komi fram að skylda sé að taka á móti til­nefn­ing­um í að minnsta kosti 77 daga.

Ætla má að hefði upp­runa­leg­um regl­um verið fylgt hefði hand­taka Mur­rell farið fram áður en að til­nefn­ing­ar­ferli hefði lokið. Mur­rell er sakaður um að hafa verið eins kon­ar brúðumeist­ari á bak við tjöld­in og hafi hann borið ábyrgð á styttu til­nefn­ing­ar­ferli.

Stur­geon hef­ur lítið tjáð sig vegna máls­ins. Á sunnu­dag tjáði hún sig í fyrsta sinn síðan að Mur­rell var hand­tek­inn. Hún sagði dag­ana hafa verið erfiða en hún hygðist halda áfram með líf og störf „eins og við mætti bú­ast.” Þá sagði hún þau hjón­in vinna með lög­regl­unni eft­ir fremsta megni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert