Murrell enn félagi þrátt fyrir rann­sókn

Hér má sjá hjónin. Sturgeon og Murrell.
Hér má sjá hjónin. Sturgeon og Murrell. AFP/Robert Perry

Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) hyggst ekki reka Peter Murrell, fyrrverandi framkvæmdastjóra flokksins og eiginmann fyrrverandi forsætisráðherra Skotlands, úr flokknum. Hann þurfi að segja sig úr flokknum sjálfur, vilji hann á brott hverfa. Þá er Murrell sagður bera ábyrgð á styttu tilnefningarferli flokksins vegna kjörs næsta leiðtoga. 

Murrell var handtekinn þann 5. apríl síðastliðinn vegna rannsóknar skosku lögreglunnar á fjármálum flokksins. Til rannsóknar er meðferð 600 þúsund punda eða 105,3 milljóna króna sem bárust í styrkjum til flokksins vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands og kosningabaráttunnar þar í kring.

Framkvæmdastjórinn fyrrverandi var yfirheyrður í ellefu klukkustundir vegna málsins og sleppt í kjölfarið. Lögreglan gerði húsleit á heimili hans og Nicolu Sturgeon, fyrrverandi forsætisráðherra Skotlands. Þá tók lögregla einnig skjöl úr húsakynnum flokksins í Edinborg vegna málsins. Í umfjöllun Telegraph kemur fram að Murrell hafi ekki verið ákærður en rannsóknin hafi verið í gangi síðan í júlí 2021.

Murrell sagður brúðumeistari á bak við tjöldin

Sturgeon er sögð hafa talið félögum flokksins trú um það að það væri ekkert athugavert við fjármál flokksins þegar rannsókn málsins hófst árið 2021.

Nýr leiðtogi flokksins, Humza Yousaf, hefur neitað því að rannsóknin hafi verið ástæðan að baki afsagnar Sturgeon úr embætti fyrir stuttu. Ýmsar spurningar eru þó á lofti varðandi leiðtogakjör flokksins eftir afsögn hennar. Samkvæmt Telegraph tók flokkurinn á móti tilnefningum í embættið í aðeins átta daga en í reglum flokksins komi fram að skylda sé að taka á móti tilnefningum í að minnsta kosti 77 daga.

Ætla má að hefði upprunalegum reglum verið fylgt hefði handtaka Murrell farið fram áður en að tilnefningarferli hefði lokið. Murrell er sakaður um að hafa verið eins konar brúðumeistari á bak við tjöldin og hafi hann borið ábyrgð á styttu tilnefningarferli.

Sturgeon hefur lítið tjáð sig vegna málsins. Á sunnudag tjáði hún sig í fyrsta sinn síðan að Murrell var handtekinn. Hún sagði dagana hafa verið erfiða en hún hygðist halda áfram með líf og störf „eins og við mætti búast.” Þá sagði hún þau hjónin vinna með lögreglunni eftir fremsta megni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka