Ó­öruggir heimildar­menn, hleranir og brostið traust

Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon. AFP

Enn hefur ekki tekist að rekja uppruna gagnalekans sem varð hjá Pentagon, höfuðstöðvum bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Lekinn stefnir bandamönnum og útsendurum Bandaríkjanna í hættu.

Háleynilegum skjölum sem varða til dæmis hernaðarupplýsingar um Úkraínu og samskipti á milli embættismanna frá Suður-Kóreu var lekið á samfélagsmiðla nú nýverið. CNN greinir frá því að lekinn hafi átt sér uppruna á samskiptamiðlinum Discord, sem er m.a. mikið notaður af tölvuleikjaspilurum. Stjórnendur rásarinnar þar sem gögnin eru sögð hafa komið fram fyrst eru sagðir vinna með yfirvöldum að því að komast að uppruna lekans. Hann sé þó ekki enn í sjónmáli.

Þá kemur fram að CNN hafi yfirfarið 53 skjöl sem birt voru í lekanum. Öll virðist þau vera frá því um miðjan febrúar og byrjun marsmánaðar. Innihald þeirra sé misviðkvæmt en öll eigi þau það sameiginlegt að vera merkt sem háleynileg.

Hvernig megi komast hjá landslögum

Í skjölunum megi finna yfirlit yfir samtöl á milli suður-kóreskra embættismanna um sölu skotfæra til Bandaríkjanna og hvernig megi gera slíkt þegar lög landsins kveða á um að ekki skuli veita „banvæna aðstoð“ til annarra landa. Þá ræði embættismennirnir hvort komast megi hjá því að brjóta þessar reglur með því að selja skotfærin til Póllands.

Þá sé einnig farið yfir stöðu varnarmála í Úkraínu, hvaða veikleikar séu sjáanleikir í vörnum Úkraínumanna. Auk þess megi í skjölunum sjá að hvaða leyti Bandaríkjunum hefur tekist að komast inn í innstu hringi rússneska varnarmálaráðuneytisins og Wagner-málaliðasveitarinnar. Með þessu er heimildarmönnum Bandaríkjanna í Rússlandi stefnt í hættu.

Ljóst þykir að Bandaríkin þurfi ekki einungis að komast að uppruna lekans heldur einnig endurbyggja traust milli sín og bandamanna vegna hans. Þá hafi einhverjir bandamenn lýst því yfir að ekki sé hægt að bíða eftir því að Bandaríkjamenn leysi málin. Ríki verði að meta áhættuna sjálfstætt og kortleggja aðstæður eftir lekann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert