Elizabeth Holmes, stofnandi blóðprufufyrirtækisins Theranos, hefur verið skikkuð til þess að sitja í fangelsi meðan á áfrýjun máls hennar stendur. Holmes var meðal annars sakfelld fyrir það að blekkja fjárfesta og hlaut ellefu ára fangelsisdóm.
Vegna þessarar niðurstöðu mun Holmes hefja afplánun sína í þessum mánuði. Að baki liggur sú ástæða að dómarinn í málinu telur ólíklegt að dómnum verði snúið við að fullu og ný réttarhöld boðuð. Þá er ekki talin hætta á því að hún reyni að flýja land. CNN greinir frá.
Greint var frá því í janúar að bandarísk stjórnvöld hefðu talið Holmes hafa reynt að flýja land. Dómarinn í málinu hefur þó fallist á þá útskýringu að Holmes hafi trúað því að hún yrði ekki sakfelld og hafi ætlað sér að mæta í brúðkaup vina í Mexíkó.
Holmes stofnaði blóðprufufyrirtækið Theranos árið 2003 þegar hún var nítján ára gömul. Fyrirtækið var eitt sinn metið á níu milljarða bandaríkjadala en því var haldið fram að mögulegt væri að greina alls kyns sjúkdóma með örfáum blóðdropum. Þær staðhæfingar reyndust síðar ekki á rökum reistar.