Kallar Rússa „villidýr“ eftir afhöfðun

Selenskí var ómyrkur í máli.
Selenskí var ómyrkur í máli. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að ódæðisverk Rússa muni aldrei gleymast í kjölfar myndbands sem fór um samfélagsmiðla sem sýnir, að því er virðist, afhöfðun úkraínsks hermanns af hendi rússnesks hermanns.

Í um 40 sekúndna löngu myndbandinu má sjá hermann merktan Úkraínu vera afhöfðaðan með eggvopni rússnesks hermanns sem hefur hulið vit sín. Í bakgrunni má heyra rússneskar raddir hvetja manninn áfram áður en lagt er til að höfuðið verði sent til yfirmannsins.

Selenskí sendi frá sér ávarp í kjölfar dreifingar myndbandsins þar sem hann fordæmdi athæfið auk þess að kalla Rússana „villidýr.“

Ásakanir um stríðsglæpi hafa gengið á báða bóga frá því stríðsátök hófust. Þá hafa myndbönd af aftökum hermanna verið tíðar á vefsíðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert