Níu látnir eftir skotárás í Ekvador

Skotárás varð við höfn í borginni Esmeraldas fyrr í dag. …
Skotárás varð við höfn í borginni Esmeraldas fyrr í dag. Árásin er sögð tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. AFP

Níu létust í skotárás sem varð við höfn borgarinnar Esmeraldas í Ekvador í morgun þegar fjöldi vopnaðra manna hóf skotárás við höfn borgarinnar. Þetta staðfestir ríkissaksóknari Ekvadors.

Árásin varð klukkan 9 á mánudagsmorgun eða um klukkan 14 að íslenskum tíma. Að sögn saksóknara fundust sjö lík við höfnina en tveir létust á sjúkrahúsi í kjölfar árásarinnar.

Árásarmennirnir eru sagðir hafa siglt inn í höfnina á tveimur bátum og einnig komið á landi í bifreiðum, þar á meðal leigubílum. Einn leigubíll var skilinn eftir af árásarmönnunum og er í vörslu lögreglunnar.

Árás tengist skipulagðri glæpastarfsemi

Innviðarráðherra Ekvadors, Juan Zapata, segir í tilkynningu að árásarmennirnir hafi verið um 30 talsins og að árásin væri tengd glæpasamtökum. Hann segir að um 200 ummerki um byssukúlur hafi fundist á svæðinu.

Að sögn Zapata varð árásin vegna þess að veiðimönnunum við höfnina „líkaði betur við gæslu“ einna glæpasamtaka heldur en annarra. Hann segir einnig að lögreglumenn sem voru við vakt á svæðinu hefðu komið í veg fyrir að fleiri slösuðust.

Neyðarstigi var lýst yfir í borginni fyrir rúmum mánuði síðan vegna umsvifa skipulagðra glæpahópa. Á síðasta aldarfjórðungi hefur morðtíðni hækkað verulega í Evkador og morð á hverja 100 þúsund íbúa tvöfaldast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert