Skutu fjölda viðvörunarskota

Maðurinn gengur mót lögregluþjónum með hnífinn á lofti sem að …
Maðurinn gengur mót lögregluþjónum með hnífinn á lofti sem að sögn sjónarvotts var annaðhvort stór kjöthnífur eða sveðja. Ljósmynd/Vegfarandi

Lögregluþjónar í Lier í Noregi, vestur af Ósló, skutu nokkrum viðvörunarskotum síðdegis í gær til viðvörunar manni sem gekk þar berserksgang með stóran hníf á bílastæði og linnti ekki látum fyrr en hann var handtekinn með fulltingi hunds sem lögregla hafði með sér á vettvang.

Vitnið Sivert Skui var á líkamsræktarstöð í nágrenninu og greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá því hvernig maðurinn hafi gengið að lögreglumönnunum með hnífinn á lofti auk þess að stinga í hjólbarða bifreiða á stæðinu og rúður. „Lögreglan hörfaði undan honum og skaut mörgum skotum í jörðina,“ segist Skui frá og kveður hnífinn hafa verið stóran, hafi þar verið annaðhvort mjög stór kjöthnífur eða sveðja.

Reyndu að aka á manninn

Trond Egil Groth varðstjóri segir NRK að lögregla kanni nú hvort fleiri en hinn handtekni hafi orðið fyrir sárum við atlögu hans. „Enn sem komið er höfum við ekki fundið fleiri sem eru sárir en við lokuðum öllu svæðinu af og málið er nú í rannsókn,“ segir Groth.

Lögregla reyndi í fyrstu að aka á manninn til að stöðva hann og tókst eftir nokkrar tilraunir. Hann féll þá við en kom sér fljótt á fætur aftur og var að lokum handtekinn þegar liðsauki barst og þar með hundurinn sem lögregla sigaði á manninn svo unnt væri að koma honum í járn.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert