Bandaríkin telja að aðalritari Sameinuðu þjóðanna beri hagsmuni Rússa of mikið fyrir brjósti, að því er kemur fram í hluta þeirra háleynilegu skjala sem hefur verið lekið á netið.
Í skjölunum kemur fram að bandarísk stjórnvöld hafi fylgst náið með Antonio Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Þó nokkur skjöl lýsa samskiptum á milli Guterres og aðstoðarmanns hans, sem bendir til þess að njósnað hafi verið um aðalritarann.
Fram kemur í skjölunum hvernig Guterres hefur tjáð sig á umbúðalausan hátt um stríðið í Úkraínu og fjölda afrískra leiðtoga, að sögn BBC.
Í einu skjalanna er fjallað um samning sem Sameinuðu þjóðirnar og Tyrkir stóðu á bak við um útflutning á korni frá Úkraínu um Svartahaf. Gengið var frá samningnum í júlí af ótta um matarkrísu á heimsvísu.
Fram kemur að Guterres hafi lagt svo mikla áherslu á að ná samningnum að hann var tilbúinn til að veita hagsmunum Rússa brautargengi.
„Guterres lagði áherslu á það að auka útflutningsgetu Rússa,“ segir í skjalinu, „jafnvel þótt rússneskir einstaklingar eða aðrir sem hafa verið beittir refsiaðgerðum eigi þar hluta að máli“.
Fram kemur að störf hans þessu tengdu í febrúar síðastliðnum væru að „grafa undan tilraunum á breiðari grundvelli til að láta Moskvu [rússnesk stjórnvöld] svara til saka fyrir aðgerðir sínar í Úkraínu“.
Embættismenn Sameinuðu þjóðanna hafa vísað því á bug að Guterres hafi sýnt Rússum linkind.
Einn háttsettur embættismaður sagði Sameinuðu þjóðirnar „leggja mikla áherslu á að draga úr áhrifum stríðsins á fátækustu þjóðir heimsins“.