Gagnalekinn á Discord - „Hann vissi hvað hann var að gera“

OG var einn af stjórnendum hópsins á samfélagsmiðlinum Discord þar …
OG var einn af stjórnendum hópsins á samfélagsmiðlinum Discord þar sem hann deildi upplýsingunum meðal kunningja. AFP

Maðurinn sem ber ábyrgð á umfangsmiklum leka á bandarískum leyniskjölum er ungur byssuáhugamaður sem deildi viðkvæmum upplýsingum og gögnum með kunningjum víða um heim, í leit að félagsskap á tímum kórónuveirufaraldursins. 

Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun bandaríska dagblaðsins The Washington Post, sem hefur þetta eftir ungum kunningja mannsins. 

Skjölin hafa m.a. varpað ljósi á það hvernig Bandaríkjamenn hafa njósnað um bandamenn og fjallað um skuggalegar sviðsmyndir í sambandi við stríðið í Úkraínu. 

Í umfjöllun Post segir að rúmlega 20 karlmenn og drengir, sem eru sagðir mjög áhugasamir um skotvopn, útbúnað fyrir hermenn og guð, hafi stofnað hóp árið 2020 á samfélagsmiðlinum Discord, sem er mjög vinsæll meðal tölvuleikjaunnenda. Aðeins var hægt að fá boð til að ganga í hópinn. 

Hélt fram að hann þekkti til ríkisleyndarmála

Þeir veittu því fyrst litla eftirtekt þegar maður sem kallaði sig OG hóf að birta skilaboð sem innihélt undarlegar skammstafanir og hrognamál. Þeir könnuðust ekki við orðin og fæstir lásu annað sem fylgdi með, en OG naut virðingar, sem einn af eldri leiðtogum hópsins, og hann hélt því fram að hann þekkti til ríkisleyndarmála sem stjórnvöld héldu frá almenningi. 

Mánuðum saman birti OG færslur á Discord sem virtust vera orðréttur texti úr leyniskjölum. OG hélt því fram að hann hefði tekið gögnin með sér heim eftir að hafa unnið á herstöð. Þetta hefur blaðamaður Washington Post eftir einum félaga hópsins, en hann neitaði að greina frá því hvaða herstöð OG hefði nefnt á nafn. 

OG segist hafa varið mörgum klukkustundum við að skrifa upp …
OG segist hafa varið mörgum klukkustundum við að skrifa upp úr gögnum sem hann hafði komist yfir, en hann sagði m.a. frá því að hann hefði varið tíma á herstöð. AFP

OG hélt því fram að hann hefði varið hluta úr degi á svæði þar sem mikið öryggi var í fyrirrúmi, en notkun á farsímum og öðrum raftækjum var þar bönnuð þar sem hægt væri að nýta þau til að komast yfir viðkvæmar upplýsingar. 

Viðmælandi Post segir að OG hafi skrifað athugasemdir á sum skjöl sem hann hafi skrifað sjálfur upp, m.a. þýtt frasa sem njósnastofnanir nota sína á milli. T.d. sagði hann frá því að NOFORN þýddi að upplýsingarnar í umræddu skjali væru svo viðkvæmar að það mætti alls ekki deila þeim með erlendum ríkisborgurum. 

Tölvuleikir, kvikmyndir og leynigögn

OG sagði hópnum hvernig hann hefði varið mörgum klukkustundum í að skrifa upp úr leynilegum skjölum sem hann deildi svo með félögum sínum á Discord-þjóni sem hann stjórnaði. Samfélagsmiðilinn naut mikilla vinsælda á tímum faraldursins, ekki síst meðal unglinga sem gátu spilað tölvuleiki saman í einangrun. Þar var einnig hægt að spjalla, grínast og horfa saman á kvikmyndir. 

Greint er frá því hvernig OG hafi farið yfir stöðu heimsmála og sagt frá leynilegum aðgerðum stjórnvalda. Viðmælandi Post segir að OG hafi viljað láta hópinn vita hvað væri raunverulega í í gangi og hafi þannig talið að hann gæti veitt félögum sínum í hópnum einhvers konar vernd með sinni þekkingu. 

Gerðist ekki fyrir mistök

„Hann er klár einstaklingur. Hann vissi hvað hann var að gera þegar hann birti þessi skjöl, að sjálfsögðu. Þetta voru alls ekki lekar sem gerðust fyrir einhverskonar mistök,“ segir viðmælandi Post. Fram kemur að hann sé yngri en 18 ára og því unglingur þegar hann kynntist fyrst OG. Post fékk samþykki frá móður drengsins til að fara í viðtalið og þá hafa blaðamenn Post einnig rætt við annan félaga í umræddum hóp sem staðfestir hans frásögn. Báðir viðmælendurnir segjast vita hvað OG heiti í raun og veru og í hvaða ríki hann eigi heima. 

Þá segir í fréttaskýringu Post að rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, á gagnalekanum standi yfir, auk þess sem bandaríska varnarmálaráðuneytið hafi hafið sérstaka rannsókn innanhúss. Þá hafa forsvarsmenn Discord sagt í yfirlýsingu að vefurinn veiti aðstoð við rannsókn málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert