Lögreglan kveikti í

Þykkjur reykjarmökkur lagðist yfir Vatne eftir að skógareldur kviknaði út …
Þykkjur reykjarmökkur lagðist yfir Vatne eftir að skógareldur kviknaði út frá blysi sem lögregla skaut upp á æfingu í morgun. Skjáskot/Fréttamyndskeið NRK

Slökkviliðinu í Sandnes í Noregi kom nokkuð á óvart hverjir reyndust eiga sök á skógareldi í Vatne þar í bænum sem kostaði slökkviliðsútkall í morgun – það var sjálf lögreglan sem kveikt hafði í fyrir slysni á æfingu.

Þykkur reykjarmökkur lagðist yfir Vatne og nágrenni eins og sést á meðfylgjandi skjáskoti úr fréttamyndskeiði norska ríkisútvarpsins NRK en lögreglan er með æfingasvæði á Vatne-fjalli, ofan við þennan bæjarhluta.

„Við erum í útkalli vegna bruna í náttúrunni við skotæfingasvæðið í Vatne í Sandnes,“ sagði Svein Knutsen, vakthafandi varðstjóri slökkviliðsins í Sandnes í samtali við norska ríkisútvarpið NRK frá vettvangi í morgun. „Í augnablikinu er þetta ekki stórbruni en hætt er við að eldurinn breiði úr sér. Gróðurinn er þurr og hér er sina sem brennur mjög hratt,“ sagði varðstjórinn.

Eru þetta hefðbundin vinnubrögð?

Æfing lögreglunnar kallaði á notkun ljósblyss, sem svífur til jarðar í fallhlíf eins og neyðarblys, og það var það sem kveikti í út frá sér þegar það lenti í skóglendinu. Segir lögregla aldrei hafa verið hættu á að eldurinn bærist í byggðina. „Fyrstu upplýsingar sem ég fékk frá stjórnanda á vettvangi voru að búið hefði verið að ráða niðurlögum eldsins að hluta, en að hann blossaði þó enn upp. Slökkviliðið var sent á vettvang en það er engin hætta á að þetta berist í hús,“ segir Helen Rygg Ims varðstjóri við NRK.

Fréttamaður NRK spyr hana að bragði hvort það teljist venjuhelguð vinnubrögð lögreglu að skjóta blysum að þurrum gróðri.

„Um það get ég ekkert sagt vegna þess að ég hef ekki rætt það við þá sem voru á vettvangi en hitt er annað mál að lögreglan notar oft ljósblys,“ svarar Ims.

Kjetil Østrått varðstjóri játar að lögregla hafi gert glappaskot með því að skjóta blysinu upp. „Þetta var óheppilegt. Staðan var metin fyrir fram varðandi hvort óhætt væri að nota blysin og menn komust að þeirri niðurstöðu að gróðurinn væri enn það blautur að það teldist óhætt. Við sjáum það núna eftir á að það var ekki heppilegasta valið en sem betur fer fór allt vel, ekkert tjón varð á eigum fólks, því sjálfu eða dýrum,“ segir Østrått.

NRK

Stavanger Aftenblad (læst áskriftargrein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert