Neitar að hafa selt Úkraínumönnum vopn

Aleksandar Vucic, forseti Serbíu.
Aleksandar Vucic, forseti Serbíu. AFP

Aleksandar Vucic, forseti Serbíu, þvertekur fyrir það að landið hafi selt vopn til Úkraínumanna í kjölfar þess sem kom fram í skjalaleka bandarískra yfirvalda um að Serbía hafði samþykkt að gera slíkt.

„Serbía hefur ekki og mun ekki flytja vopn til Úkraínu,“ segir Vucic við blaðamenn. Hann bætir við að landið muni heldur ekki gera slíkt fyrir Rússa. „Það er ekkert skjal sem myndi segja nokkurt annað,“ segir hann.

Í gær greindi fréttamiðillinn Reuters frá því að í þeim skjölum sem lekið var frá bandarískum yfirvöldum kæmi fram að Serbía „hefði samþykkt að senda vopn til Úkraínu, eða hafi þegar gert það.“ Reuters kvaðst þó ekki geta sannreynt skjölin sjálf.

Mílos Vucevic, varnarmálráðherra Serbíu, var snöggur að neita öllum ásökunum um að setja vopn í hendur Úkraínumanna. „Einhver hefur augljóslega áhuga á að draga Serbíu inn í átökin en við hlýðum okkar löggjöf í hvívetna,“ segir Vucevic í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert