Norðmenn vísa Rússum úr landi

Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra, vinstra megin, ræðir við kanadíska starfssystur sína, …
Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra, vinstra megin, ræðir við kanadíska starfssystur sína, Melanie Joly, á fundi Norður-Atlantshafsráðsins í Brussel í síðustu viku. AFP/Kenzo Tribouillard

Norsk stjórnvöld hafa lýst fimmtán starfsmenn rússneska sendiráðsins í Ósló óæskilega á norskri grundu, persona non grata eins og það heitir upp á latínu á vettvangi diplómatískra tengsla, vegna meintra njósna, eða eins og Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra orðar það á blaðamannafundi sem nú stendur yfir:

„Þessir fimmtán leyniþjónustumenn eru lýstir óæskilegir vegna þess að þeir hafa stundað starfsemi sem samræmist ekki diplómatískri stöðu þeirra.“

Umræddir starfsmenn sendiráðsins hafa dvalið í Noregi og gegnt ýmsum stöðum í sendiráði Rússlands en nú telja norsk yfirvöld sig hafa komist á snoðir um njósnastarfsemi þeirra. Er þeim gert að yfirgefa landið á næstu dögum en ár er síðan þremur öðrum starfsmönnum sendiráðsins var vísað frá Noregi í apríl í fyrra. Brottvísunin nú er sú fjölmennasta í sögu sendierindrekatengsla landanna.

Undir eftirliti um langa hríð

Byggist ákvörðun norskra stjórnvalda á hertu eftirliti með hvers kyns upplýsingaöflun rússneskra sendimanna í skugga breyttrar stöðu í öryggismálum þjóðarinnar í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í fyrra.

„Mesta ógnin er vofir yfir Noregi vegna njósna kemur frá Rússlandi. Því tökum við af alvöru og skerum því upp herör gegn rússneskri njósnastarfsemi hér í landinu. Við munum ekki heimila að rússneskir leyniþjónustumenn starfi hér í skjóli sendimennsku,“ segir ráðherra enn fremur.

Samkvæmt upplýsingum frá norska utanríkisráðuneytinu hafa fimmtánmenningarnir verið undir eftirliti um langa hríð. Öryggislögreglan PST, sem haft hefur veg og vanda af því eftirliti, vill þó ekki tjá sig um málið að svo stöddu og bendir Eirik Veum, upplýsingafulltrúi hennar, á ráðuneytið.

Svara í sömu mynt

Þegar norsk stjórnvöld vísuðu þremur sendimönnum úr landi í fyrra svöruðu þau rússnesku með því að vísa sama fjölda norskra sendierindreka frá Rússlandi. Ljóst er að Rússar munu einnig svara í sömu mynt nú, því hefur rússneska utanríkisráðuneytið lýst yfir við ríkisfréttastofuna Tass þar í landi.

„Ég vil leggja áherslu á að Noregur telur eðlileg diplómatísk samskipti við Rússland æskileg og að rússneskir sendimenn eru velkomnir í Noregi. Aðgerðum okkar nú er eingöngu beint gegn óæskilegri njósnastarfsemi,“ segir Huitfeldt ráðherra.

Bendir ráðuneyti hennar á að fleiri evrópskar ríkisstjórnir hafi upp á síðkastið gert reka að því að fækka innan sinna landamæra Rússum með tengingar við leyniþjónustustarfsemi.

NRK

NRKII (brottvísun í fyrravor)

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert