Embætti saksóknara í Rússlandi hefur hafið bráðabirgðarannsókn á myndbandi sem virðist sýna afhöfðun úkraínsks stríðsfanga af hendi rússnesks hermanns.
„Til að meta áreiðanleika þessa efnis og taka viðeigandi ákvörðun var það sent til rannsóknaryfirvalda sem eiga að skipuleggja rannsókn,“ sagði í yfirlýsingu embættisins.
Í um 40 sekúndna löngu myndbandinu má sjá hermann merktan Úkraínu vera afhöfðaðan með eggvopni rússnesks hermanns sem hefur hulið vit sín. Í bakgrunni má heyra rússneskar raddir hvetja manninn áfram áður en lagt er til að höfuðið verði sent til yfirmannsins.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sendi frá sér ávarp vegna dreifingar myndbandsins þar sem hann fordæmdi athæfið auk þess að kalla Rússana „villidýr.“