Stefán dæmdur í lífstíðarfangelsi í Flórída

Stefán Phillip Gíslason var dæmdur í lífstíðarfangelsi, en hann var …
Stefán Phillip Gíslason var dæmdur í lífstíðarfangelsi, en hann var fundinn sekur um manndráp með að hafa skotið annan mann í hnakkann í apríl árið 2020. Samsett mynd

Íslendingurinn Stefán Phillip Gíslason var í síðasta mánuði dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir manndráp með því að hafa skotið mann til bana á heimili í Pensacola í Flórída í Bandaríkjunum.

Dómur var kveðinn upp í málinu í byrjun mars, en Vísir greindi í dag fyrst íslenskra miðla frá niðurstöðu málsins.

Stefán fæddist á Íslandi en flutti mjög ungur út til Pensacola með foreldrum sínum. Hefur hann búið þar alla tíð síðan.

Lík manns­ins, Dillon Shanks, sem var 32 ára gam­all þegar atvikið átti sér stað, fannst aðfar­anótt mánu­dags í apríl 2020, en maður­inn var gest­kom­andi á heim­ili í Pensacola. Stefán var 28 ára gam­all þegar málið kom upp, en er núna 31 árs. Hann tilkynnti um andlátið um nóttina og sagði að um sjálfs­víg væri að ræða að því er fram kem­ur í skýrslu lög­reglu.

Vitni gáfu sig hins vegar fram og var framburður þeirra þannig að lögregla taldi ólíklegt að um sjálfs­víg væri að ræða og hand­tók Stefán. Var annað vitnið fyrrverandi kærasta Stefáns. Sagði annað vitnið að Stefán og Shanks hafi rif­ist fyr­ir utan húsið og að Stefán hafi haldið á skot­vopni.

Þegar Shanks fór inn í húsið hafi Stefán elt hann inn og vitnið seg­ir að fljót­lega eft­ir það hafi hann heyrt skot­hvell. Annað vitni hef­ur staðfest að Stefán hafi verið vopnaður byssu þegar hann deildi við Shanks fyr­ir utan húsið og að hann hafi heyrt skot­hvell þegar hann var að fara af svæðinu. 

Pensacola News Journal segir frá því að Stefán hafi skotið Shanks í höfuðið, en að hann hafi verið búinn að drekka mikið. Haft er eftir Stefáni að Shanks hafi ætlað að slást við vin hans og því hafi Stefán beðið Shanks um að fara af heimili sínu. Þá hafi Stefán grátið í dómsalnum þegar hann sagðist ekki hafa viljað skjóta hann og að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. Þrátt fyrir að Stefán hafi borið fyrir sig að þeir hafi tekist á, þá töldu rannsóknarlögreglumenn að ekki hafi gengið upp miðað við atvikalýsingu að um sjálfsvörn væri að ræða.

Aðalmeðferð málsins tók tvo daga í október og komst kviðdómur að því innan þriggja klukkustunda að Stefán væri sekur. Féll dómur svo sem fyrr segir í byrjun mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert