TikTok út í kuldann hjá NRK

Norska ríkisútvarpið NRK bætist nú í hóp þeirra norsku lögaðila …
Norska ríkisútvarpið NRK bætist nú í hóp þeirra norsku lögaðila sem kjósa að vísa TikTok á dyr af öryggisástæðum. AFP/Mario Tama

Norska ríkisútvarpið NRK bætist nú í hóp fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga í Noregi sem biðja starfsfólk sitt að fjarlægja samskiptaforritið umdeilda, TikTok, úr öllum símum og öðrum stafrænum verkfærum sem tengjast tölvukerfi NRK. Frá þessu greinir stofnunin sjálf á fréttasíðu sinni og aðrir norskir fjölmiðlar einnig.

„NRK hefur farið yfir öryggistengdar áskoranir sem varða TikTok og komist að þeirri niðurstöðu að leyfa forritið ekki í símum og spjaldtölvum sem tengjast kerfum NRK,“ segir í innanhússpósti ríkisútvarpsins til starfsmanna sem dagblaðið VG hefur fengið í hendur.

Hafa ekki svarað VG

Heldur stofnunin þó úti nokkrum síðum á TikTok þar sem fyrst má fræga telja NRK Supernytt sem 240.000 manns fylgjast með. Eins má þar nefna þættina Unormal og 4ETG sem hvor um sig hefur eigin síðu á TikTok og fylgja þar 76.400 og 74.900 manns dagskrárliðum þessum hvert fótmál.

Talsmenn NRK hafa að sögn VG ekki svarað fyrirspurnum blaðsins um málið, svo sem þeirri hvort bannið muni hafa áhrif á þær síður sem útvarpið heldur úti á samfélagsmiðlinum en samkvæmt starfsmannapóstinum muni breytingin óhjákvæmilega hafa áhrif á mat NRK á því með hvaða hætti efni er beint að unglingum.

„NRK hefur um árabil stefnt að því að verða í takmarkaðri mæli háð samfélagsmiðlum og þetta mál sýnir nauðsyn þess. Von er á nánari upplýsingum um hvernig birtingu efnis verður háttað framvegis,“ segir Jørgen Heid, sviðsstjóri birtingasviðs NRK, í póstinum.

Með 365.000 fylgjendur

Þær ritstjórnir NRK sem nýta TikTok til birtingar efnis muni, eftir því sem einnig segir þar, fá sérstaka síma til að nýta við birtingu efnis þar. Verði þeir símar hvorki tengdir neti NRK né tölvupóstkerfi.

Auk framangreindra TikTok-síðna hefur starfsfólk einstakra dagskrárliða haldið úti síðum þar og haft um sig fjölda fylgjenda. Má þar nefna Zöru Cecilie Leite í Unormal, sem 365.400 TikTok-notendur fylgjast með, en samstarfskona hennar í þættinum, Lydia Gieselmann, nýtur athygli 42.400. Selma Ibrahim, sem stjórnar Super, hefur 91.000 áhangendur og Eurovision-stjarnan, sem kynnir það er að segja, ekki tónlistarmaður, Annika Momrak, hefur um sig hjörð 49.000 notenda TikTok.

Eins og greint var frá hér á mbl.is í nýlegum fréttum af TikTok-boðum og -bönnum réð norska þjóðaröryggisstofnunin NSM opinberum stofnunum eindregið frá því að að hafa forritin TikTok og hið rússneska Telegram í þeim símum sínum og snjalltækjum sem tengdust innviðum stofnananna. Bannaði þá Stórþingið notkun forritanna auk heilu sveitarfélaganna þar sem Ósló og Bergen riðu á vaðið.

NRK

VG

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert