18 þúsund kýr drápust í sprengingu

18 þúsund kýr drápust í stórri sprengingu í Texas.
18 þúsund kýr drápust í stórri sprengingu í Texas. AFP/Skrifstofa lögreglustjórans í Castro-sýslu

Um 18 þúsund kýr drápust í sprengingu á mjólkurbúi í Texas í Bandaríkjunum fyrr í vikunni. Einn maður slasaðist alvarlega og liggur hann á gjörgæslu. 

Sprengingin varð á South Fork-mjólkurbúinu í grennd við bæinn Dimmitt. 

Lögregluyfirvöld í Texas greindu frá sprengingunni og telja að vélabúnaður á mjólkurbúinu hafi valdið sprengingunni en hún varð út frá metangasi.

Tilkynning barst um sprenginguna klukkan 19.21 að staðartíma í Texas á mánudag. Þegar viðbragðsaðila bar að garði fundu þeir eina manneskju illa særða og flytja þurfti hana með þyrlu á sjúkrahús. 

Nákvæm tala yfir hversu margar kýr drápust í eldinum er á reiki en metur lögregla að þær hafi verið um 18 þúsund. 

„Það eru sennilega einhverjar sem lifðu þetta af. En það eru einhverjar sem eru illa særðar eftir þetta og þarf að lóga þeim,“ sagði Sal Rivera lögreglustjóri í umdæminu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert