Hinn 21 árs gamli Jack Teixeira hefur verið ákærður fyrir óheimila varðveislu og dreifingu á varnarmálaupplýsingum ásamt óheimiluðum flutningi og varðveislu á leynilegum skjölum. Teixeira er sagður hafa staðið að baki leka tuga bandarískra leyniskjala frá Pentagon.
Teixeira, sem starfaði fyrir netdeild þjóðvarnaliðsins í Massachusetts var handtekinn í gær fyrir verknaðinn. Lekinn er sagður sá mest skemmandi síðan að skjölum frá bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni (NSA) var lekið af Edward Snowden árið 2013.
New York Times greinir frá því að Teixeira hafi verið dreginn fyrir rétt í Boston í Massachusetts ríki fyrr í dag.
Þjóðvarnaliðsmaðurinn fyrrverandi deildi umræddum skjölum í tuttugu til þrjátíu manna hópi á samfélagsmiðlinum Discord. Meðlimir hópsins sem fjölmiðlar vestanhafs hafa talað við í kjölfar uppljóstrunarinnar segja Teixeira hafa viljað kenna drengjum innan hópsins um raunveruleika stríðs og ganga í augun á þeim.
Lekinn hefur ollið miklu fjaðrafoki víða um heim enda innihéldu skjölin ýmisst trúnaðarsamtöl á milli embættismanna, áhættumöt vegna andláta þjóðarleiðtoga og upplýsingar um varnaskipulag Úkraínu.