Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, mun þurfa að sæta yfirheyrslu af lögreglu vegna innrásar stuðningsmanna hans í þinghús Brasilíu, Hæstarétt Brasilíu og forsetahöll landsins í janúar.
Hæstiréttur Brasilíu komst að þessari niðurstöðu í dag.
Bolsonaro mun þurfa að svara fyrir þær ásakanir að hann hafi hvatt stuðningsmenn sína til óreiðanna.
Stuðningsmenn hans ruddust inn í umræddar byggingar þann 8. janúar til að mótmæla embættistöku Luiz Inacio Lula da Silva, sem Bolsonaro tapaði forsetakosningum fyrir. Lula tók við embætti 1. janúar.
Bolsonaro flúði til Bandaríkjanna tveimur dögum áður en Lula tók við forsetaembætti Brasilíu. Hann snéri þó aftur til Brasilíu í lok mars.