Norska öryggislögreglan PST greinir frá því í dag að brottvísun 15 starfsmanna rússneska sendiráðsins í Ósló frá Noregi dragi verulega úr þeirri hættu sem njósnir af hálfu Rússa geti haft í för með sér fyrir hagsmuni norska ríkisins en hinir brottreknu liggja allir undir grun um að hafa stundað njósnir í þágu síns heimalands meðan á dvöl þeirra í Noregi stóð.
Frá þessu greinir AFP-fréttastofan og vitnar til orða Inger Haugland, yfirmanns gagnnjósnadeildar PST, sem kveður hættu á njósnum af hálfu Rússa þó engan veginn úr sögunni, úr henni hafi aðeins dregið verulega.
Nefnir Haugland sem dæmi um háskalega gagnsöfnun Rússa að einn hinna brottreknu sendimanna hafi gert tilraun til að útvega sér gögn er snertu „háþróaða neðansjávartækni“ Norðmanna án þess að fara nánar út í á hvaða sviði sú tækni liggur.
Lagði hún áherslu á að þótt þessu höggi hefði verið komið á njósnir Rússa undir yfirbragði diplómatískra tengsla væri björninn engan veginn unninn og fjöldi annarra leiða enn í spilinu. Nefndi hún þar meðal annars njósnara sem kæmu í heimsóknir, til dæmis sem ferðamenn, njósnara sem byggju langan aldur í móttökuríkinu og væru virkjaðir er þörf krefði, svokallaða slepper agents á ensku, netnjósnir og njósnaskip en nýlega var greint frá rússnesku skipi sem greinilega átti að virðast rannsóknarskip þrátt fyrir að vera þakið háþróuðum fjarskiptabúnaði.
„Hættan af njósnum er breytt eftir innrás Rússa í Úkraínu,“ hefur AFP eftir Haugland. Noregur hefur þótt ákjósanlegt njósnaskotmark í Moskvu vegna vopnaiðnaðar síns og orkuframleiðslu en Norðmenn hafa hvort tveggja fært Úkraínumönnum vopnabúnað og eru stærsti gasútflutningsaðili á Evrópumarkaði eftir að Rússar skrúfuðu að mestu fyrir sínar gasleiðslur.