Auðkýfingurinn Elon Musk hefur áform um að fara í samkeppni við ChatGPT framleiðandann OpenAI, með stofnun nýs gervigreindarfyrirtækis samkvæmt frétt Financial Times.
Musk er eigandi Tesla og Twitter og er einn af ríkustu mönnum heims, en hérlendis hlaut hann mikla athygli fyrir erjur sínar við íslenska frumkvöðulinn Harald Inga Þorleifsson á Twitter.
Samkvæmt heimildum FT hefur Musk tryggt sér þúsundir hágæða GPU-örgjörva, en gervigreindarhönnun krefst slíks búnaðs til að byggja upp tungumálalíkan af þeirri stærðargráðu sem gervigreind krefst. Gervigreindin þarf að geta innbyrt gríðarlegt magn af efni til að knýja fram manneskjuleg skrif og raunverulegt myndefni, svipað og tækni ChatGPT.
Musk er sagður hafa hraðar hendur við að koma fyrirtækinu á lappirnar, en það kann að vekja undrun margra innan gervigreindariðnaðarins. Musk skrifaði opið bréf fyrr á þessu ári, þar sem hann kallaði eftir hléi á þróun GPT-tækni af öryggisástæðum.
Musk var einn stofnenda OpenAI árið 2015, en yfirgaf nefndina 2018 vegna átaka milli stjórnenda, meðal annars með tilliti til gervigreindaröryggis að sögn tveggja aðila sem voru partur af verkefninu á þeim tíma.