Frumvarp Macrons samþykkt að mestu leyti

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP/Yves Herman

Franski stjórnlagadómstóllinn samþykkti í dag flest meginatriði í umdeildu frumvarpi Emmanuels Macrons Frakklandsforseta um að hækka ellilífeyrisaldur í landinu úr 62 árum í 64 ár. Að sögn flokksmanna í stjórnarandstöðu er þó enn hægt að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum.

Sex atriði í frumvarpinu voru ekki talin nauðsynleg og því ekki samþykkt. Hins vegar voru meginatriði frumvarpsins, þar á meðal hækkun ellilífeyrisaldurs, samþykkt. Vinstri flokkar í landinu höfðu óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið en dómstóllinn taldi að þess væri óþarfi.

Fjölmenn mótmæli og verkföll hafa skekið Frakkland frá því í janúar vegna frumvarpsins. Mótmælin náðu hápunkti sínum í marsmánuði þegar Macron, sem telur breytingarnar nauðsynlegar, lét forsætisráðherra þvinga frumvarpið í gegnum franska þingið án umræðu með 3. mgr. 49. grein stjórnarskrárinnar, sem jafnan er kölluð 49:3 í daglegu tali í Frakklandi. 

„Baráttan heldur áfram“

Jean-Luc Melenchon, formaður vinstri flokksins La France Insoumise, segir að baráttan gegn frumvarpinu sé enn ólokin þrátt fyrir að meginatriði þess hafi verið samþykkt af stjórnlagadómstólnum.

„Baráttan heldur áfram og við verðum sameina krafta okkar“ segir Melenchon á Twitter.

Marine Le Pen formaður Rassemblement National og fyrrum mótframbjóðandi Macrons, segir að þrátt fyrir ákvörðun stjórnlagadómstólsins örlög frumvarpsins séu enn ekki ráðin.

Macron hefur átt undir högg að sækja seinustu misseri vegna mótmælanna, í heimalandi sem og erlendis. Sem dæmi má nefna atvik í vikunni þegar hann var truflaður í miðjum ræðuflutningi í Haag í Hollandi.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert