Tólfta maí leggur danska ríkisstjórnin niður landamæraeftirlit gagnvart Svíþjóð sem tekið var upp tímabundið 12. nóvember 2019. Hefur stjórnin tilkynnt Evrópusambandinu um þetta skref eftir því sem danska dómsmálaráðuneytið greinir frá í fréttatilkynningu.
Í framkvæmd táknar þetta fyrst og fremst að vegabréfaskoðun við Eyrarsundsbrúna lýkur en hún hefur byggst á úrtakskenndri skoðun landamæravarða í almenningssamgöngutækjum og einkabifreiðum við brúna. Á sama tíma fellur vegabréfaskoðun niður við stærstu ferjuhafnir en landamæraeftirlitið þessi rúmu þrjú ár beindist fyrst og fremst að lestum og ferjum frá Svíþjóð til Danmerkur.
Á sama tíma verður dregið mjög úr landamæraeftirliti á mörkum Danmerkur og Þýskalands og það framvegis einkum byggt á áhættugreiningu. Nýja fyrirkomulagið, hvort tveggja gagnvart Svíþjóð og Þýskalandi, er þó einnig tímabundið og stendur í fyrstu lotu fram til 11. nóvember.
„Það er gríðarlega mikilvægt að hafa hendur í hári þeirra sem stunda ólögmæta iðju þvert á landamæri og breytingarnar núna munu styrkja eftirlit með brotastarfsemi við landamærin,“ segir Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra við danska ríkisútvarpið DR.
Hann telur þó rétt að landamæraeftirliti verði áfram sinnt við þýsku landamærin þótt úr því verði dregið. Það helgist af hryðjuverkaógn. Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra segir að breytingarnar opni til dæmis fyrir möguleika á að beita eftirlitsdrónum við landamærin auk búnaðar sem greini skráningarnúmer bifreiða og bakgrunnsathugunar á þeim sem milli landanna fara.
Tímabundið landamæraeftirlit gagnvart Þýskalandi tóku Danir upp árið 2016 og hefur það ítrekað verið framlengt um hálft ár í senn, síðast í október. Segir dómsmálaráðuneytið ríkislögreglustjóraembættið danska telja breytt fyrirkomulag landamæraeftirlits hafa jákvæð áhrif á eftirlit með smygli og annarri brotastarfsemi sem nær yfir landamæri.