Hollensk yfirvöld hyggjast breyta reglugerð um dánaraðstoð, en breytingin felur í sér að heimila dánaraðstoð fyrir börn á aldrinum eins til tólf ára.
Nýju reglurnar myndu heimila læknum að aðstoða fimm til tíu börn á ári hverju sem þjást óbærilega af sjúkdómi sínum, eiga enga von á bata og líknandi meðferð ber engan árangur.
Holland var fyrsta landið í heiminum til að lögleiða dánaraðstoð árið 2002, með ströngum skilyrðum. Núverandi löggjöf gefur þegar möguleika á dánaraðstoð fyrir börn yfir tólf ára og börnum innan við eins árs aldur.
Holland verður ekki fyrst til að leyfa dánaraðstoð fyrir börn á öllum aldri, en Belgía hefur leyft það síðan árið 2014.