Ökumaður með mælaborðsmyndavél í bifreið sinni slapp naumlega við að lenda í árekstri við lögreglubifreið sem ekið var á ofsahraða á móti honum á sveitavegi í velska smábænum Caerphilly.
Glöggt má heyra að ökumanni og farþega hans er brugðið og dró ekki úr þegar lögreglubifhjól og önnur lögreglubifreið komu í loftköstum á eftir þeirri fyrri sem svo var ekið út af veginum og yfir limgerði.
Aflaði breska ríkisútvarpið BBC þeirra upplýsinga frá staðarlögreglunni að 19 ára gamall maður hefði tekið lögreglubifreiðina traustataki og haldið á brott á henni. Tekur lögregla sérstaklega fram, sem er vinsælt haldreipi, að brotamaðurinn hafi verið utanbæjarmaður, frá bænum Wattsville í nágrenni Newport, þekkt aðferð, samanber gamla íslenska frétt um að hundur sem beit manneskju í einhverju bæjarfélagi hafi verið aðkomuhundur.
Ökumaðurinn var alltént handtekinn eftir útafaksturinn og hefur nú verið kærður fyrir gripdeild, glæfraakstur, hunsun stöðvunarmerkja lögreglu, akstur undir áhrifum áfengis eða lyfja, akstur án ábyrgðartryggingar, árás og skemmdarverk.