Krókódíll gerði usla í farþegaflugi

​Krókódílar eru ekki árennilegir. Þetta er þó ekki sá er …
​Krókódílar eru ekki árennilegir. Þetta er þó ekki sá er hér um ræðir. mbl.is/RAX

Hálfs metra langur krókódill olli miklu uppþoti í farþegaþotu á leið frá Darwin til Derby í Ástralíu um miðjan apríl 1973. Frá þessu var greint á forsíðu Morgunblaðsins.

Krókódíllinn slapp úr farangri einhvers farþegans og viðstöddum brá heldur illilega í brún þegar hann kom skokkandi niður eftir ganginum, skellandi kjaftinum í allar áttir.

„Flestir nærstaddir klifruðu skelfingu lostnir upp á sætisbökin en ein hugrökk flugfreyja greip teppi og lagði til atlögu við króksa,“ stóð í fréttinni. „Henni tókst með aðstoð eins farþegans að hrekja hann út í horn og þar var hann handsamaður og vandlega vafinn inn í nokkur teppi unz hann gat sig hvergi hreyft. Enginn farþeganna vildi kannast við dýrið þegar vélin lenti og tók lögreglan það í sína vörzlu.“

Í þessu sama tölublaði var merkileg frétt um sölu á málverki. Maður nokkur á Akureyri hafði séð ljósmynd af málverki á sýningu Jakobs Hafstein í Morgunblaðinu og hringdi í ofboði til að kaupa það. Og það án þess að hafa séð litina enda Mogginn svarthvítur á þessum árum.

Gamla fréttin er alltaf á baksíðu Sunnudagsblaðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert