Einn var handtekinn eftir að reyksprengju var kastað í átt að forsætisráðherra Japans í Wakayama í dag. Fumio Kishida varð ekki meint af og er við góða heilsu.
Hávær sprenging heyrðist á vettvangi en fylgdarlið forsætisráðherra tryggði öryggi hans og kom honum af vettvangi skjótt og örugglega.
Lögregla hefur handtekið ungan karlmann, Ryuji Kimura, en lögregla hefur neitað að tjá sig um málið að svo stöddu. Rannsókn standi yfir.
Öryggisgæsla forsætisráðherrans japanska var aukin til muna á síðasta ári eftir að forveri hans í starfi, Shinzo Abe, var skotinn til bana á kosningafundi í Nara.
Kishida varð ekki meint af eins og fyrr segir. Hann heldur áfram dagskrá sinni í dag, en hann átti að flytja ræðu á kosningafundi í Wakayama í dag.
Málið verður að taka alvarlega að sögn Isao Itabashi, sérfræðings í aðgerðum gegn hryðjuverkum. Leiðtogafundur G7-ríkjanna fer fram í Hiroshima í Japan í maí. Hefur mikið verið rætt um öryggisaðgerðir fyrir fundinn.