Valdaránstilraun virðist hafin

Flugher Súdans gerði árás úr lofti á stöðvar vígamanna í …
Flugher Súdans gerði árás úr lofti á stöðvar vígamanna í Kartúm. AFP

Íbúar Kartúm, höfuðborgar Súdan, vöknuðu upp við sprengjuhríð í morgun. Harðnað hefur í deilum milli hers landsins og sveita vígamanna. Um hádegisbil í dag gerði súdanski herinn árás úr lofti á stöðvar vígamanna í borginni. 

Sveitir vígamanna virðast hafa gert valdaránstilraun í borginni og hafa sent út frá sér tilkynningu að þinghús landsins sé nú á þeirra valdi. Því neitar súdanski herinn. 

Tveir létust í árás á flugvél á flugvelli borgarinnar. Einn er látinn eftir átök á götum borgarinnar. Níu hafa særst.

Tekist á um sameiningu

Forsetinn Abdel Fattah al-Burhan og hans næstráðandi, hershöfðinginn Mohamed Hamdan Daglo, hafa staðið í deilum undanfarnar vikur vegna fyrirhugaðrar sameiningar hersins og sveita vígamanna. Burhan er hershöfðingi súdanska hersins og forseti landsins en Daglo hefur leitt sveitir vígamanna. Stóð til að sameina herina tvo. Her al-Burhan hrifsaði völdin til sín í landinu árið 2021. 

Íbúar eru hvattir til að leita skjóls.
Íbúar eru hvattir til að leita skjóls. AFP

Leita skjóls

Sendiherra Bandaríkjanna, John Godfrey, kom til Kartúm í gærkvöld og lýsir aðstæðum á Twitter. „Ég vaknaði við skothljóð og slagsmál. Ég leitaði skjóls ásamt teymi mínu í sendiráðinu.“

Íbúar Kartúm hafa verið hvattir til að leita skjóls. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert