24 þúsund Norðmenn á leið í verkfall

Viðbúið er að Norðmenn muni finna fyrir áhrifum verkfallsaðgerðanna sem …
Viðbúið er að Norðmenn muni finna fyrir áhrifum verkfallsaðgerðanna sem snerta marga kima samfélagsins. mbl.is/Golli

Ríflega 24.000 Norðmenn munu að óbreyttu leggja niður störf í vikunni eftir að viðræðum atvinnurekenda og tveggja samtaka verkalýðsfélaga, YS og LO, lauk í dag án samkomulags.

Verkföllin hefjast að óbreyttu klukkan sex í fyrramálið og teygja anga sína í flesta hluta þjóðfélagsins, þar á meðal í byggingariðnað, samgöngurekstur, gistihúsarekstur og framleiðsluiðnað.

Fara fram á fimm prósenta kaupmáttarhækkun

Viðræður á milli samtaka atvinnurekenda og stéttarfélagasamtakanna höfðu staðið yfir frá því á föstudag og fóru fram undir handleiðslu sáttasemjara ríkisins.

Fundi var slitið þegar stéttarfélagasamtökin höfnuðu miðlunartillögu sáttasemjara. Heimildir norska dagblaðsins VG herma að sú hækkun hafi hljóðað upp á 5,2% og í ljósi þess að verðlag í Noregi hefur hækkað um 4,9% frá gildistöku síðustu samninga væri kaupmáttarhækkunin því 0,3%.

Talið er að LO hafi gert kröfu um fimm hundraðshluta kaupmáttarhækkun fyrir sína félagsmenn en félagið hefur haldið því á lofti í þessari samningslotu að laun félagsmanna sinna þurfi að hækka umfram verðlagshækkanir.

Norska þjóðin eigi ekki að þurfa að súpa seyðið

NHO, félag norskra atvinnurekenda, segir ákvörðun stéttarfélagasamtakanna vera vonbrigði.

„Norska þjóðin á ekki að þurfa að takast á við þessi verkföll. NHO hefur verið lausnamiðað í viðræðunum og samið í góðri trú með uppbyggilegum hætti. Viðsemjendur okkar hafa ekki áhuga á því að mætast miðja vegu,“ segir í yfirlýsingu félags atvinnurekenda.

Fyrstu verkföll LO í tvo áratugi

Verkföllin verða þau fyrstu sem LO, stærstu samtök stéttarfélaga í Noregi, efnir til frá árinu 2003. 

„Við mátum það svo að tilboð atvinnurekenda, sem endaði síðan í miðlunartillögu sáttasemjarans, hafi ekki verið nægilega gott til þess að samþykkja,“ sagði Peggy Hessen Folsvik, formaður LO, við blaðamenn eftir að viðræðum var slitið í kvöld.

Samtök stéttarfélaganna hafa hótað frekari verkfallsaðgerðum ef viðræður við atvinnurekendur skila ekki tilætluðum árangri í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert