Filippa komin heim af sjúkrahúsinu

Filippa fannst á lífi og er nú komin heim til …
Filippa fannst á lífi og er nú komin heim til sín.

Hinni 13 ára gömlu Filippu heilsast vel og líðan hennar er að öðru leyti bærileg miðað við aðstæður, að því er fram kemur í færslu móður hennar á Facebook.

Filippa skilaði sér ekki heim í gær, eftir að hafa verið að bera út blöð í heimabæ sínum Kirkeby í Danmörku. Eftir umfangsmikla leit fannst hún í dag á heimili 32 ára karlmanns. Sá var handtekinn á vettvangi.

Rannsókn málsins stendur nú yfir og voru fleiri handteknir, en tveir þeirra voru látnir lausir að lokinni skýrslutöku. 

Þakkar dönsku þjóðinni

Fillippa var á lífi þegar hún fannst, en var jafnskjótt flutt á Slag­el­se sjúkra­húsið til aðhlynningar. Hún er nú komin heim til sín, ef marka má skrif móður hennar. 

„27 klukkustunda martröð er yfirstaðin og mín heitt elskaða Filippa er komin heim,“ segir í færslunni. 

Þar þakkar Pernille Dandanell Gøgsig Nielsen, móðir Filippu, dönsku þjóðinni í heild sem og viðbragðsaðilum, fyrir veitta aðstoð. Jafnframt þakkar hún fyrir þær ótal kveðjur sem hún hefur fengið og kveðst munu lesa þær þegar henni gefst ráðrúm til. 

„Núna ætla ég að einbeita mér að því að vera til staðar fyrir dóttur mína.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert