Danska lögreglan hefur umkringt hús í Kirkerup, ekki langt frá þar sem talið er að hin 13 ára gamla Filippa hafi horfið í gær. Beðið er eftir liðsauka í aðgerðirnar. Danska ríkisútvarpið, DR, greinir frá.
Búið er að girða af svæði um 200 metra í kring um húsið. Lögreglumenn í hlífðargöllum eru á svæðinu að sögn fréttamanns DR á svæðinu.
Tilkynnt var um hvarf Filippu um klukkan fjögur síðdegis í gær að staðartíma. Hvarf hún við blaðaútburð í hverfinu og hefur lögregla leitað hennar síðan.
Filippa hafði samband við föður sinn í síma skömmu fyrir hádegi í gær en lýst var eftir henni um klukkan fjögur sama dag þegar hún skilaði sér ekki heim. Reiðhjól, sími og taska hennar fundust við vegkant.
Lögregla hefur yfirheyrt fjölda manns. Lögregla vinnur með nokkrar sviðsmyndir við leitina. Að sögn rannsóknarlögreglumannsins Kim Kliver fór lögregla yfir fjölda myndskeiða í nótt sem tengjast málinu.
„Þetta eru myndskeið sem við þurfum að fara yfir til að kortleggja hvenær Filippa hvarf og hvað gerðist áður en hún hvarf. Sú vinna mun halda áfram í dag,“ sagði Kliver.