Ögrandi, ágeng og kynþokkafull

Mary Quant árið 2004.
Mary Quant árið 2004. AFP/Pierre Verdy

Hún litaði líf okkar, í bókstaflegri merkingu. Flaggaði svarthvítu tískuna, sem lengi hafði ráðið ríkjum, rangstæða í upphafi sjöunda áratugarins og lék sér með bjartari liti, grænt, gult, rautt og hvað þeir allir heita. Það varð upptakturinn að einhverju goðsögulegasta tískuskeiði mannkynssögunnar, Sveiflusexunni eða The Swinging Sixties, sem margir hönnuðir sækja enn innblástur í.

Nú er Mary Quant öll, 93 ára að aldri, og margir hafa minnst hennar með virðingu og hlýju.

„Hún var einn af fyrstu hönnuðum sem brutu allt upp, tískan hennar breytti ekki bara því hvernig við klæddum okkur, heldur ekki síður hvernig við hugsum,“ sagði Frances Corner, prófessor við London's Goldsmiths-skólann, þar sem Quant nam sitt fag á sinni tíð. ­„Djúpstæð áhrif hennar leystu upp hinn svarthvíta heim sjötta áratugarins og breyttu honum í litadýrð þess sjöunda sem hefur lifað fram á þennan dag.“

Mary Quant með OBE-orðuna sína árið 1966. ​
Mary Quant með OBE-orðuna sína árið 1966. ​ AFP


Framlagið ekki ofmetið

Stuttpilsið er órofa partur af Sveiflusexunni. Menn greinir á um það hvort Quant hafi fundið það upp eða franski hönnuðurinn Andre Courrages en það var í öllu falli hún sem gerði það frægt og án hennar hefði það aldrei náð sömu hæðum og orðið samofið menningarbyltingu ungu kynslóðarinnar. Hún er einnig sögð hafa fundið upp aðsniðna boli og stuttbuxur og vatnsheldan maskara. Ekki slæmt það.

Alexandra Shulman, fyrrverandi ritstjóri breska Vogue, kallar hana frumkvöðul og breska V&A-hönnunarsafnið vottaði frumkvæði hennar og arfleifð virðingu sína. „Það er engin leið að ofmeta framlag Quant til tískunnar,“ segir í minningarorðum frá safninu á Twitter.

Quant opnaði sína fyrstu verslun, Baazar, árið 1955 ásamt Alexander Plunket Greene, sem síðar varð eiginmaður hennar. Hann féll frá 1990. Verslunin var í Chelsea, þar sem hjarta Sveiflusexunnar sló, og seldi föt og fylgihluti. Í kjallaranum var veitingahús sem varð samkomustaður unga fólksins, ekki síst þeirra sem hneigðust til lista. Í Chelsea-hverfinu mátti rekast á leikkonur á borð við Brigitte Bardot og Audrey Hepburn og poppstjörnur eins og Bítlana og The Rolling Stones.

Þessi mynd var tekin á yfirlitssýningu á hönnun Quant frá …
Þessi mynd var tekin á yfirlitssýningu á hönnun Quant frá árunum 1955-75 í Lundúnum 2019. ​ AFP/Adrian Dennis


Quant lyfti pilsfaldinum langt upp fyrir hné og skóp þannig stutta kjóla og pils með einföldu sniði og sterkum litum. Um það notaði hún sjálf orðin „ögrandi, ágeng og kynþokkafull“. „Góði smekkurinn er dauður, óskammfeilni er lífið,“ tjáði hún The Guardian.

Nánar er fjallað um Mary Quant í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert