Lögreglan í Danmörku telur nú að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað við hvarf hinnar 13 ára gömlu Filippu. Lögregla hefur leitað stúlkunnar síðan í gær og hefur nú umkringt hús í bænum Kirkerup, þaðan sem stúlkan hvarf.
„Við lítum þetta mál alvarlegum augum. Við höfum miklar áhyggjur af Filippu og vinnum nú með þá tilgátu að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað,“ sagði Kim Kliver, lögreglustjóri á svæðinu, í tilkynningu til fjölmiðla.
Lögregla hefur hingað til ekki viljað svara hvort hún teldi að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað eða hvort önnur skýring sé á hvarfi stúlkunnar.
Filippa hvarf einhvern tíma eftir hádegi í gær en hún var við blaðaútburð á hjóli sínu. Lýst var eftir henni um klukkan fjögur síðdegis í gær.
Lögregla hefur varið nóttinni í að fara yfir myndefni úr eftirlitsmyndavélum í hverfinu þaðan sem hún hvarf. Reiðhjól hennar, sími og bakpoki fundust við vegkantinn í gær.
Í morgun girti lögregla af hús og er fjöldi lögreglumanna á svæðinu. Um 20 hundar hafa verið notaðar við leitina að Filippu og kallar lögregla enn eftir ábendingum frá almenningi.