„Svona gerist ekki hér“

Lögreglan hefur afgirt svæði við leit að 13 ára Filippu, …
Lögreglan hefur afgirt svæði við leit að 13 ára Filippu, sem hvarf í gær við blaðaútburð í heimabæ sínum Kirkerup. AFP

„Maður verður auðvitað áhyggjufullur. Það er skelfilegt að lítil stúlka hverfi á laugardagsmorgni,“ segir íbúi í Kirkerup í Danmörku þar sem bæjarbúar eru skelfingu lostnir vegna hvarfs hinnar 13 ára Filippu. Margir íbúar hafa boðið fram aðstoð við leitina. 

Filippa hvarf eftir hádegi í gær og hringdu foreldrar hennar á lögreglu þegar hún skilaði sér ekki heim eftir að hafa borið út dagblöð í bænum.

Lögreglan rannsakar nú málið sem sakamál, en hjól, sími og bakpoki Filippu fundust við vegkant í bænum í gær. Lögreglan rannsakar nú skóg í nágrenninu og hefur girt af svæði í kringum hús þar í nágrenni. 

Hvarfið vakið mikinn ugg meðal íbúa

Fréttastofa DR ræddi við Michael Borries, íbúa í Kirkerup, en hann segir hvarfið hafa vakið mikinn ugg meðal bæjarbúa. 

„Svona gerist ekki hér, við búum í pínulitlum bæ,“ segir Borries, sem er forritari. Hann hefur ákveðið að bjóða lögreglu aðstoð sína við leitina. 

„Við sáum þyrluna á lofti í gær. Í morgun lásum við svo lögreglan væri hér enn við leit, svo við hugsuðum að nú færum við niður eftir og byðum fram hjálp okkar. Það er ekki víst að við getum hjálpað mikið, en ef við getum lagt eitthvað af mörkum þá gerum við það.“

Annar íbúi bæjarins. Jörgen Moll Jakobsen, komst við í samtali við blaðamann DR. 

„Þetta er hræðilegt. Ég á engin orð,“ sagði Jakobsen og bætir við „Þetta hlýtur að vera hræðilegt fyrir foreldrana, ekki myndi ég vilja vera í þeirra stöðu. Aumingja þau. Ég á sjálfur tvær stelpur. Þær eru vissulega fullorðnar núna, en ég get rétt ímyndað mér hvað þau eru að ganga í gegnum.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert