Her Súdan og RSF-uppreisnarherinn þar í landi, hafa fallist á tillögu Sameinuðu þjóðanna um tímabundið vopnahlé. Verður þar með gert hlé á átökunum milli klukkan 16 og 19 á staðartíma, eða 14 og 17 á íslenskum tíma.
Vopnahléið var metið nauðsynlegt til þess að koma við brýnni neyðaraðstoð á svæðinu, en átökin brutust út á laugardagsmorgun og í morgun höfðu minnst 56 almennir borgarar látið lífið.
Afríkuráð Sameinuðu þjóðanna hefur lýst því yfir að það muni nýta sér vopnahléið og halda tafarlaust til Súdan í þeirri von um að hrinda af stað samningaviðræðum sem gætu bundið enda á átökin.
Fjöldi sprenginga hafa dunið á borginni. Vopnað herlið hefur tekist á úti á götum borgarinnar. Árásarþotur fljúga yfir borgina og skriðdrekar fara um göturnar.
Fyrirséð er að margir munu reyna að flýja átakasvæðið, meðan vopnahléið stendur yfir. Jafnframt verður leitast við að koma slösuðu fólki undir læknishendur.
Her landsins er stjórnað af Abdel Fattah al-Burhan en uppreisnarhernum af hans næstráðanda Mohamed Hamdan Daglo. Saman stóðu þeir að valdaráninu árið 2021 og hafa stjórnað landinu saman síðan þá. Kastaðist í kekki milli þeirra vegna fyrirhugaðrar sameiningar heraflans.
Al-Burhan og Daglo hafa báðir sagt að mikilvæg svæði borgarinnar séu á þeirra valdi en báðir segjast þeir hafa völd yfir eina og sama flugvellinum. Þá segist uppreisnarherinn hafa stjórn á forsetahöllinni.
Báðir hafa lýst yfir stuðningi við vopnahléið.