Tveimur mönnum sleppt í tengslum við mál Filippu

Rannsókn er í fullum gangi.
Rannsókn er í fullum gangi. AFP

Tveimur mönnum hefur verið sleppt úr haldi dönsku lögreglunnar, en þeir höfðu verið handteknir í tengslum við hvarf hinnar 13 ára Filippu, sem skilaði sér ekki heim í gær og  fannst svo í dag á heimili 32 ára karlmanns. TV2.dk greinir frá. 

Sá var handtekinn vegna málsins en lögreglan greindi frá því að hafa tekið fleiri höndum. Nú er vitað til þess að tveir karlmenn hafi verið látnir lausir að lokinni skýrslutöku. 

Fillippa var á lífi þegar hún fannst, en var jafnskjótt flutt á Slagelse sjúkrahúsið. 

Af vettvangi.
Af vettvangi. AFP

Aukin viðvera lögreglu í Korsör

Aukin viðvera og aðbúnaður lögreglu er við íbúðarhús í Korsör, nærliggjandi bæ við Kirkeby. Ekki hefur verið staðfest hvort það tengist máli Filippu.

Filippa hvarf frá Kirkeby en þess má geta að Korsör var heimabær ungu stúlkunnar, Emilie Meng, sem hvarf þaðan sporlaust, árið 2016. Lík hennar fannst fjórum mánuðum síðar í mýri í bænum Borup, 65 kílómetrum frá staðnum sem síðast sást til hennar. Mál hennar er enn óupplýst, en mál Filippu hefur vakið upp óhugnanlegar minningar meðal íbúa á svæðinu um mál Emilie.   

Móðir Filippu var viss um að hún væri látin

Móðir Filippu, Pernille Nielsen, er í skýjunum yfir að dóttir hennar hafi fundist.

Blaðamaður Ekstra Bladet náði í Pernille símleiðis þar sem hún og eiginmaður hennar voru á leið á sjúkrahúsið sem Filippa hafði verið flutt á.  

Pernille kvaðst hafa verið orðin afar svartsýn, eftir að lögregla tilkynnti að málið yrði rannsakað sem sakamál, og hafi verið viss um að hún fengi ekki að sjá dóttur sína á lífi aftur. 

„Ég hef búist við því versta í allan dag. Ég var viss um að Filippa væri dáin,“ sagði Pernille tárvot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert