Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, er útskrifaður af gjörgæslu eftir að hafa legið þar í eina og hálfa viku. Að sögn lækna er hann nú á almennri deild.
Berlusconi er 86 ára gamall og var lagður inn á San Raffaele sjúkrahúsið 5. apríl með þráláta sýkingu í lungum og hvítblæði.
Í yfirlýsingu lækna Berlusconi sagði að enn væri fylgst með ástandi hans og að hann myndi áfram fá viðeigandi meðferð.
Berlusconi var forsætisráðherra þrisvar sinnum á árunum 1994 til 2011. Frá árinu 2020 hefur hann dvalið mikið á sjúkrahúsi eftir að hann sýktist af kórónuveirunni.