Bjórverkfall nagar Norðmenn

Sóknin í vímuna hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda og …
Sóknin í vímuna hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda og þótt hinn almenni Norðmaður missi ekki svefn yfir sælgætis- og snakkþurrð í vikubyrjun er glímuskjálftinn meiri þegar brugghúsin skrúfa fyrir kranann í verkfallinu. AFP/Kenzo Tribouillard

Verkfall 24.000 launþega í Noregi sem hófst í morgun bítur víða, en þá lögðu hópar starfsfólks innan stærstu launþegasamtaka Noregs, LO, sem skarta tæplega milljón félagsmönnum, og YS, sem eru ekki lítil heldur með sína 230.000 félaga, niður störf með víðtækum afleiðingum.

Ferjusiglingar ganga til dæmis mjög úr skorðum og verður margur Norðmaðurinn, sem háður er ferju til að komast til og frá vinnu, lengur á leiðinni í dag. Þá fara 600 starfsmenn IKEA í verkfall og þarf gríðarstór verslun sænska húsgagnarisans á Furuset í Ósló til dæmis að loka dyrum sínum. Framleiðsla rjómaíss leggst einnig af hjá Diplom-is auk þess sem Maarud-snakk ratar ekki í pokana hjá sínum gamalgróna framleiðanda. Það sama gildir um norskt sælgæti.

Framangreindu taka mismunandi hópar fólks misalvarlega, en ein birtingarmynd verkfallsins hefur þó haft mjög sýnilegar afleiðingar í morgun – stopp í bjórframleiðslu hjá þungavigtarbrugghúsunum Ringnes og Hansa Borg auk nokkurra minni framleiðenda.

Þarf að sækja bjórinn sjálfur

Greina bjórkaupmenn, sem í Noregi eru ríkið og matvöruverslanir, frá því að sóknin í mjöðinn nú sé svipuð og fyrir stórhátíðir og segja norskir fjölmiðlar af bjórbiðröðum á mánudagsmorgni sem telst til tíðinda nema helst fyrir jól og áramót.

„Nei, þetta leysist nú líklega fljótt,“ segir Omar Ali, starfsmaður í Joker-versluninni í Røa í Ósló, þegar norska ríkisútvarpið NRK kemur að honum þar sem hann er að stafla nánast heilu vörubretti af bjór inn í sendiferðabíl af hjólavagni við söluaðstöðu Ringnes á Bryn. Ali svarar þar spurningu um hvort verkfallið valdi honum óróa.

Hann fékk enga vörusendingu í búðina sína frá Ringnes í morgun vegna verkfallsins svo nú þarf hann að sækja sjálfur og það fyrr en síðar áður en bjórinn gengur til þurrðar því framleiðslan er stopp sem fyrr segir.

Óttast ekki að fólk svelti þrátt fyrir snakkþurrð

Kristine Danielsen, kaupmaður í Rema 1000 í Porsgrunn, segir vikuna hafa hafist með látum í búðinni og minni á bjórsölu fyrir hátíðir. „Ef fólk fer að hamstra tæmist mjög fljótt hjá okkur,“ segir Danielsen við NRK.

Tor Harald Alvestad, lagerstjóri hjá Coop í verslunarmiðstöðinni Kvadrat í Sandnes, segir viðskiptavinina ekki sýna einkenni hömstrunar enn sem komið er. „Nú er verkfall svo við fáum líklega ekki fleiri sendingar út vikuna. Núna erum við með tilboð á Pepsi Max og margir fylla körfurnar af því í dag. Það klárast líklega,“ segir Alvestad.

Hann reiknar ekki með að nokkur þurfi að óttast svelti, gnótt matar og allra lífsnauðsynlegra vara sé til þótt einhverjir verði ef til vill að neita sér um sælgæti og kartöfluflögur í verkfallinu.

NRK

Dagsavisen

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert