Ung fótboltastjarna er ein fjögurra fórnarlamba skotárásar í 16 ára afmælisveislu í Alabama í Bandaríkjunum á laugardagskvöld. Philstavious Dowdell var bróðir Alexei Dowdell sem var að halda upp á afmælið sitt.
Að minnsta kosti 28 særðust, sumir alvarlega, er maður hleypti af skotum klukkan hálf ellefu í dansstúdíó í borginni Dadeville þar sem afmælisveislan var haldin. Um þrjú þúsund manns búa í borginni.
Lögregla hefur ekki gefið upp hvort einhver hafi verið handtekinn vegna málsins en prestur í borginni tjáði BBC að byssumaðurinn væri enn laus og hvatti hann til að gefa sig fram.
Dowdell er fyrsta fórnarlamb árásarinnar til að vera nafngreint en líkt og áður sagði var hann bróðir afmælisbarnsins.
Dowdell átti að útskrifast úr menntaskóla í vor og hefja nám í Jacksonville ríkisháskólanum þar sem hann hafði fengið fótboltastyrk.
Montgomery Advertiser greinir frá því að móðir systkinanna hafi verið skotin tvisvar en hún sé á batavegi.
Annette Allen, amma Dowdell, sagði að barnabarnið sitt hafi verið hógvær drengur sem var alltaf brosandi.
Hún lýsti ringulreiðinni sem varð eftir skotárásina er foreldrar vildu vita hvort börn þeirra hefðu særst.
Joe Biden Bandaríkjaforseti gaf út yfirlýsingu í gærmorgun þar sem hann kallaði eftir hertari byssulöggjöf.
Fleiri en 160 fjöldaskotárásir hafa orðið í Bandaríkjunum það sem af er ári.