Rússneskum ferðamanni, sem birti nektarmynd af sjálfri sér fyrir framan heilagt tré á Balí, hefur verið vísað úr landi. Stjórnvöld í Indónesíu greindi frá þessu.
Hin 40 ára Luiza Kosykh var send úr landi á sunnudagskvöld. Var hún send aftur heim til Moskvu en stjórnvöld höfðu hendur í hári hennar í síðustu viku.
Kosykh var handtekin á miðvikudag eftir að nektarmynd hennar, sem tekin var fyrir framan um 700 ára gamalt tré sem talið er heilagt af hindúum á Balí, fór á flug. Olli myndin reiði á meðal hindúa.
Konan sagði myndina ekki hafa verið tekna nýlega, heldur fyrir nokkrum árum, og að hún hefði ekki vitað að tréð væri heilagt.
Kosykh kom til Balí í janúar og fékk tímabundna vegabréfsáritun. Gildir hún þar til í desember á næsta ári.
Tæpar tvær vikur eru síðan öðrum rússneskum ferðamanni var vísað brott frá Balí, en sá gerðist sekur um að taka mynd af sér berum að neðan á heilögu fjalli á eyjunni.
Útlendingastofnun Indónesíu hefur þrýst á ferðamálaráðuneyti Balí að flýta því að klára að útbúa leiðarvísi fyrir ferðamenn sem sækja eyjuna heim.
„Ferðamenn vita ekki allir hvað má og hvað má ekki á Balí. Því hvetjum við heimamenn til að fylgjast með nærumhverfi sínu til að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig,“ sagði Anggiat Napitupulu, starfsmaður mannréttindaskrifstofu á Balí.