Karlmaðurinn, sem tekinn var höndum í danska bænum Kirkerup í gær, er grunaður um að hafa frelsissvipt og nauðgað Filippu, 13 ára stúlku sem hvarf við blaðaútburð í bænum um helgina.
Maðurinn var handtekinn þegar Filippa fannst á heimili hans í gær. DR greinir frá.
Ákæruvaldið hefur krafist þess að maðurinn sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi.
Maðurinn er grunaður um að hafa haldið henni fanginni í rúmlega sólarhring. Á þeim tíma telur lögregla að hann hafi fært hana á milli tveggja heimila.
Hann er einnig grunaður um að hafa nauðgað henni nokkrum sinnum, beitt hana ofbeldi og hótað henni.
Dómshald verður lokað, meðal annars vegna þess að Filippa er ekki búin að gefa skýrslu. Einnig vegna þess að rannsókn lögreglu er á frumstigi.
Filippa hvarf við útburð dagblaða á laugardag. Þegar hún skilaði sér ekki heim á réttum tíma kallaði fjölskylda hennar eftir aðstoð lögreglu og hófst leit að henni um klukkan fjögur síðdegis sama dag.
Lögregla fann hana á heimili mannsins um hádegisbil í gær. Var Filippa með fullri meðvitund en flutt á spítala til aðhlynningar. Tveir aðrir menn voru handteknir, en þeim var sleppt í gær.