Lögfræðingur rússneska stjórnarandstæðingsins Vladimírs Kara-Múrsa, sem fyrr í dag var dæmdur í 25 ára fangelsi, telur dóminn yfir honum pólitískan áróður. Kara-Múrsa sé pólitískur fangi og um sé að ræða hefndaraðgerðir gegn honum sem eiga ekkert skylt við réttlæti.
Eiginkona Vladimírs, Evgenía Kara-Múrsa, segir að dómurinn yfir honum sýni að ríkisstjórn Vladimírs Pútíns hati hann fyrir hugrekkið og dirfskuna sem hann hefur sýnt. Hún óttast að eiginmaður sinn muni ekki þola við í aldarfjórðung í fangelsi heilsu sinnar vegna þrátt fyrir að vera andlega sterkur. Vladimír Kara-Múrsa þjáist af taugasjúkdómi en eitranir sem hann varð fyrir hafa tekið sinn toll og haft slæm heilsufarsleg áhrif á hann að sögn Evgeníu.
„Einkennin fara versnandi. Svo ég geri mér grein fyrir því að hann á ekki 5 ár eftir, hvað þá 25.“
Margir hafa fordæmt dóminn yfir Vladimír Kara-Múrsa, þar á meðal Frakkar sem biðla til Rússa að sleppa pólitískum föngum. Þá er haft eftir gagnrýnandanum Alexei Navalní, sem situr í fangelsi í Kreml, að dómurinn yfir Vladimír í dag hafi reitt hann til reiði og valdi hneykslun. Telur hann dóminn ólöglegan, blygðunarlausan og byggðan á fasisma.
Lynne Tracy, sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi, segir blaðamanninn Evan Gershkovich hjá Wall Street Journal við góða heilsu en hún heimsótti hann í fangelsið fyrr í dag og er það í fyrsta skipti sem veittur var aðgangur að honum eftir að hann var handtekinn fyrir meira en viku síðan í skýrslutöku, sakaður um njósnir.