Skotinn eftir að hafa farið húsavillt

Húsráðandi skaut tvívegis á Ralph Yarl sem farið hafði húsavillt.
Húsráðandi skaut tvívegis á Ralph Yarl sem farið hafði húsavillt. Skjáskot/Fatih Spoonmore GoFundMe

Svartur unglingspiltur var skotinn við útidyr húss í Kansas í Missouri í Bandaríkjunum eftir að hafa farið húsavillt í lok síðustu viku. Mótmæli brutust út í borginni um helgina.

Hundruð mótmælenda söfnuðust saman nálægt húsinu þar sem skotárásin átti sér stað og kyrjuðu að líf hörundsdökkra skipti máli og að Ralph skildi fá réttlæti („Black Lives Matter“ og „Justice for Ralph“).

BBC greinir frá.

Skotið hæfði Ralph í höfuðið

Hinn 16 ára gamli, Ralph Yarl, var sendur af foreldrum sínum til að sækja bræður sína en misskildi fyrirmælin og hringdi dyrabjöllu í röngu húsi í rangri götu. Húsráðandi skaut tvívegis á drenginn í gegnum dyrnar og hæfði annað skotið hann í höfuðið. 

Ralph Yarl var útskrifaður af sjúkrahúsi í gær og er að jafna sig í faðmi fjölskyldunnar að sögn Paul Yarl, föður piltsins er hann ræddi við Kansas City Star.

Sleppt að lokinni skýrslutöku

Lögreglan færði skotmanninn á lögreglustöð en honum var sleppt úr haldi eftir skýrslutöku. Í Missouri ber lögreglu að ákæra grunaða einstaklinga innan 24 klukkustunda eða sleppa þeim.

Ben Crump og Lee Merritt, lögmenn fjölskyldunnar hafa gagnrýnt embættismenn fyrir að sleppa hinum grunaða, sem þeir segja að sé hvítur karlmaður.

„Stand Your Ground“

Til skoðunar er hvort skotmaðurinn sé verndaður af hinum svokölluðu Stand Your Ground - lögum ríkisins, sem veita fólki leyfi til að beita banvænu vopni ef það telur sig í bráðri lífshættu. Gagnrýnendur segja lögin greiða fyrir ofbeldi gegn hörundsdökku fólki.

Stacey Graves, lögreglustjóri í Kansas City, sagðist viðurkenna og skilja áhyggjur og viðbrögð samfélagsins við atvikinu.

Stjörnur á borð við Halle Berry, Kerry Washington og Jennifer Hudson hafa krafist réttlætis og lýst yfir stuðningi við Yarl fjölskylduna á samfélagsmiðlum.

Safnað nærri tveimur milljónum dollara

Frænka piltsins setti upp GoFundMe-síðu til að safna fyrir umönnun frænda síns. Á síðunni er Ralph Yarl lýst sem „einum af fremstu bassaklarínettleikurum ríkisins“ og að hann „spili á mörg hljóðfæri í ungmennahljómsveit stórborgarinnar“.

Safnast hafa nærri tvær milljónir bandaríkjadala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert