Kókaínsendingar til lagers bananainnflytjandans Bama í Ósló í Noregi nálgast nú 1,6 tonn á tæpum þremur vikum eftir að starfsmenn þar fundu milli átta og níu hundruð kg af efninu í bananakössum frá Ekvador um helgina.
Ekki er lengra síðan en í marslok að lögregla fann þar 820 kg af kókaíni og þá eftir ábendingu lögreglunnar í Brandenburg í Þýskalandi sem þá hafði fundið 1.200 kg af efninu í þeim hluta bananasendingarinnar sem þangað fór.
Hvorir tveggja fundirnir eru margfalt það magn sem norsk löggæsluyfirvöld hafa nokkru sinni lagt hald á af kókaíni en fram að þeim snerist stærsta kókaínmál í sögu Noregs um 153 kg sem tekin voru árið 2015. Lét tollgæslan þess getið við fjölmiðla í tengslum við málið í mars að þau 820 kg sem þá fundust væru meira en tvöfalt það magn efnisins sem hún hefur lagt hald á í samanlögðu síðastliðin fimm ár.
„Lögreglan og tollgæslan hafa fundið mikið magn kókaíns í Bama. Fyrstu rannsóknir benda til þess að hér sé um meira magn að ræða en síðast,“ sagði Greta Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, við norska dagblaðið VG um helgina og bætti því við að málið væri rannsakað með þeim formerkjum að málin tvö tengdust.
Enginn liggur enn sem komið er undir grun í þessu langstærsta kókaínmáli sem komið hefur upp í landinu en það voru starfsmenn Bama sjálfir sem tilkynntu lögreglu um fundinn núna um helgina.
Kvað Metlid lögreglu vinna út frá þeirri kenningu að báðar sendingarnar hefðu komið til Noregs fyrir mistök en verið á leið til annarrar hafnar í Evrópu. Teldi lögregla enn fremur að síðari sendingin hefði verið lögð af stað frá Ekvador áður en fundur efnanna í Noregi og Þýskalandi í mars varð fréttaefni.
„Líklega er þarna stór skipulagður hringur að verki. Nokkur stór kókaínmál hafa komið upp í Evrópu upp á síðkastið,“ sagði deildarstjórinn sem útilokar ekki að Norðmenn tengist málinu.
Tim Gurrik, talsmaður norsku tollgæslunnar, telur líklega að bananasendingunni frá Ekvador hafi verið skipt upp þegar skipið kom til hafnar í Rotterdam í Hollandi. Þaðan fór svo hluti sendingarinnar til Brandenborgar og það var lögreglan þar sem komst að þeirri niðurstöðu að líkast til hefði hluti kókaínsins haldið áfram til Noregs. Að sögn Metlid deildarstjóra hleypur verðmæti efnanna á mörg hundruð milljónum norskra króna.
Norska innflutningsfyrirtækið Bama Gruppen tekur árlega á móti rúmlega 500.000 tonnum af ávöxtum og grænmeti á starfsstöðvum sínum en birgjar þess eru 240 í rúmlega 80 löndum í fimm heimsálfum.